„Valgerður Bjarnadóttir hefur rétt fyrir sér þegar hún segir að álit Feneyjarnefndarinnar sé bara álit. En það er augljóst að nefndin gerir miklar athugasemdir við þennan afmarkaða kafla stjórnarskrárfrumvarpsins sem hún fékk til umsagnar,“ segir Illugi Gunnarsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins.
Hann bendir á að íslenskir fræðimenn sem hafi skoðað aðra hluta frumvarpsins að nýrri stjórnarskrá hafi að sama skapi gert miklar athugasemdir við það. Viðbrögð Valgerðar séu að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis, sem hún veitir formennsku, þurfi að vinna úr þessum athugasemdum.
„En það eru einungis nokkrir dagar eftir fram að þingslitum. Á maður að trúa því að það sé ekki nokkur maður innan stjórnarliðsins sem áttar sig á því í hvers konar óefni þetta mál er komið. Á virkilega að ana áfram með vanhugsaðar breytingar á stjórnarskrá landsins?“ spyr Illugi á Facebook-síðu sinni í kvöld.