„Þetta er sorgardagur, þegar við ákváðum að kaupa húsið árið 2002 voru trén hluti af þeirri heildarmynd sem við heilluðumst af. Ég verð að viðurkenna að þau hafa tilfinningagildi fyrir alla fjölskylduna,“ segir Jón S. Jörundsson. Hann og eiginkona hans hafa staðið í deilum við nágranna sinn í nokkur ár vegna trjánna sem nágrannakona þeirra taldi skyggja á dagsbirtu og sól á palli sem hún byggði árið 2007. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu í janúar að Jóni bæri að fella trén. Þess má geta að trén voru um 18 metrar og teygðu sig allt að 2,40 metra inn á lóðina þar sem konan sem kvartaði býr.
Jón og eiginkona hans treystu sér ekki til að vera heima í gær þegar trén voru felld. Morgunblaðið náði tali af Jóni rétt eftir að hann kom heim og sá gerbreytta ásýnd lóðar sinnar. Hann segir að það hafi verið meira áfall en hann átti von á að koma heim, aðkoman hafi verið skelfileg.
Málareksturinn hefur tekið sinn toll fjárhagslega fyrir Jón og hans fjölskyldu. Spurður um heildarkostnað vegna málsins segir Jón hann vera yfir fjórar milljónir króna.