Vestmanneyjabær hefur stefnt kaupanda og seljanda Bergs-Hugins og krefst ógildingar samningsins. Höfða skal málið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Vestmannaeyjabær krefst þess að ógiltur verði með dómi samningur um kaup Síldarvinnslunnar hf. á öllum eignarhlutum í Bergi-Hugin ehf. af Q44.
Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefndu óskipt að skaðlausu samkvæmt mati dómsins eða framlögðum málskostnaðarreikningi, að því er fram kemur í stefnunni.
Vestmannaeyjabær byggir kröfu sína á því að hann eigi rétt á að ganga inn í kaupsamning milli Síldarvinnslunnar og Q44 um sölu á öllum eignarhlutum í Bergi-Hugin til Síldarvinnslunnar á grundvelli forkaupsréttar sveitarfélags að fiskiskipum samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða.
Vestmannaeyjabær tekur fram að stefndu hafi ekki viljað, þrátt fyrir að skorað hafi verið á þá af hálfu bæjarins, að leggja fram afrit kaupsamningsins milli Q44 og Síldarvinnslunnar um kaup á öllum hlutum í Bergi-Hugin.
„Af því tilefni skorar stefnandi á stefndu að upplýsa um efni kaupsamnings aðila sem gerður var í ágúst 2012 og leggja samninginn og eftir atvikum önnur skjöl tengd sölunni fram undir rekstri málsins,“ segir í stefnunni.
Þá segir að ef stefndu verði ekki við þessari áskorun sé byggt á því að leggja beri til grundvallar staðhæfingar Vestmannaeyjabæjar um efni kaupsamningsins og önnur atriði í tengslum við sölu alls hlutafjár í Bergi-Hugin.