„Kjarkurinn er ekki meiri“

Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, ásamt fleiri þingmönnum.
Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, ásamt fleiri þingmönnum. mbl.is/Eggert

„Hverjum dettur það í hug að bjóða upp á það að það náist að afgreiða á þessu þingi stjórnarskrármálið eins og það er statt? Hverjum dettur það í hug? Við urðum vitni að því hér í gær þegar Hreyfingin setti ríkisstjórninni stólinn fyrir dyrnar og ríkisstjórnin fór á taugum og ríkisstjórnarflokkarnir.“

Þetta sagði Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á Alþingi í dag í umræðum um störf þingsins. Hann gagnrýndi harðlega hvernig halda ætti á dagskrármálum Alþingis fram að þinglokum sem fyrirhuguð eru eftir rúman mánuð. Þannig væri ætlunin að afgreiða tvö stór mál sem væru andvana fædd, stjórnarskrármálið og nýtt frumvarp um stjórn fiskveiða.

„Kjarkurinn er ekki meiri en sá að það sem var farið að bjóða hér upp á að ræða hér einhverja skynsamlega niðurstöðu í því máli [stjórnarskrármálinu], ná einhverri sátt um að afgreiða einhver atriði sem menn gætu náð saman um fyrir þinglok, að þá verður að hafa allt málið undir. Algjörlega útilokað og mun aldrei ljúka hér. Við urðum hér vitni að því hvernig þingmenn Hreyfingarinnar tóku ríkisstjórnina á beinið og hótuðu hér að koma fram óbeint með vantrauststillögu á stjórnina og ríkisstjórnin og ríkisstjórnarflokkarnir gáfu eftir,“ sagði hann.

Brýn verkefni á dagskrá en ekki gælumál

Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, tók í sama streng. Kosið hefði verið um það á Alþingi í gær hvort taka ætti á dagskrá frumvarp að nýrri stjórnarskrá, sem fæli í sér breytingar sem væru hálfunnar og engin sátt um, eða nýtt frumvarp að lögum um stjórn fiskveiða sem einungis fæli í sér smávægilegar breytingar frá fyrri frumvörpum sem hefðu fengið falleinkunn.

Þetta gerðist á sama tíma og uppnám væri á Landspítalanum vegna kjaradeilu sem segja mætti að velferðarráðherra hefði sett af stað með því að hækka laun forstjóra sjúkrahússins á síðasta ári, vandi heimila og fyrirtækja væri mikill eins og áður og allir hagvísar bentu til þess að svartara væri framundan en ríkisstjórnin hefði haldið fram.

„Þá tölum við um það hér hvort ágreiningsmálið eigum við að ræða fyrst, stjórnarskrána eða fiskveiðistjórnunina,“ sagði Ragnheiður og beindi þeim orðum til forseta Alþingis, Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttir, að tekin yrðu á dagskrá mál sem væru brýn og aðkallandi en ekki gælumál ríkisstjórnarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert