Nefndarmenn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis, sem rætt var við í gærkvöldi, voru ekki sammála um áhrif álits Feneyjanefndarinnar á framgang stjórnarskrármálsins í Alþingi. Gætt hefur titrings í hópi stuðningsmanna tillagnanna síðustu daga.
Valgerður Bjarnadóttir, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, sagði að ýmsu væri hrósað og einhverjar athugasemdir gerðar við annað. Á endanum væri það síðan pólitísk ákvörðun á Alþingi hvernig stjórnarskráin ætti að vera. Margrét Tryggvadóttir, fulltrúi Hreyfingarinnar, sagði að það sem hún væri búin að lesa liti ágætlega út. Hún sagðist ekki þora að fullyrða um áhrif álitsins á framgang málsins.
„Mitt mat er það, að álit Feneyjanefndarinnar undirstriki með skýrum hætti að það sé fullkomlega óraunhæft að ætla að ljúka þessu frumvarpi fyrir vorið,“ segir Birgir Ármannsson, annar fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, í Morgunblaðinu í dag.