Laun á Íslandi eru talsvert lægri á Íslandi, en í Noregi, Svíþjóð og Danmörku. Ósérhæft launafólk er með 35% hærri laun í Danmörku, 49% hærri laun í Noregi og 27% hærri laun í Svíþjóð. Launamunurinn er enn meiri ef um sérhæft starfsfólk er að ræða.
Þetta kemur fram í lífskjaraskýrslu ASÍ þar sem borin eru saman lífskjör á Íslandi við lífskjör í Danmörku, Noregi og Svíþjóð.
Í skýrslunni segir að samanburður á launum fólks í þessum löndum segi takmarkaða sögu ef launin eru borin saman í evrum. En ef launin séu launin færð á gjaldmiðla hvers lands megi bera saman tekjur þessara hópa að gefnu tilliti til skattkerfa landanna og mismunandi verðlags.
Þegar litið er til launa í þjónustu-, umönnunar- og sölustörfum eru laun í Noregi áfram hæst og munur milli Íslands og Svíþjóðar eykst þar sem einstaklingar í þjónustu störfum hafa að jafnaði 32% hærri tekjur eftir skatt að jafnvirðisgildi. Aftur á móti lækka tekjur í Danmörku gagnvart sömu stéttum á Norðurlöndum og hlutfallslegur munur við Ísland minnkar í samanburði við laun ósérhæfðra einstaklinga. Skýringin kann þó að liggja í ólíkum vinnutíma, og launamunur mögulega sökum styttri vinnuviku í þjónustustörfum miðað við ósérhæfð störf í Danmörku fremur en beinum launamun.
Þegar laun í sérfræðistörfum eru borin saman eykst hlutfallslegur munur og staða Íslendinga verður verri í samanburði við nágrannaþjóðirnar þegar litið er til tekna eftir skatt heldur en starfsstéttum með lægri tekjur. Nú mælist launamunurinn mestur tæp 60% gagnvart Noregi og minnstur 33% gagnvart Svíþjóð eftir að leiðrétt hefur verið fyrir verðlagi. Skattbyrðin er jafnframt orðin meiri á Íslandi en í Svíþjóð hjá sérfræðingum en það stafar bæði að því að launþegi í Svíþjóð fær stighækkandi persónuafslátt við hærri tekjur og því að launþegi á Íslandi er kominn í hærra skattþrep en sá sænski greiðir enn í lægsta skattþrepi.
Samanburður leiðir í ljós að skattbyrði er í flestum tilfellum lægri á Íslandi en annars staðar á Norðurlöndum fyrir laun í sambærilegum en tekjur eftir skatt eru að sama skapi umtalsvert lægri eftir að leiðrétt hefur verið fyrir verðlagi. Munurinn útskýrist að mörgu leyti af þeirri rýrnun kaupmáttar sem hefur átt sér stað í gegnum gengisfall krónunnar en leiðir jafnframt í ljós þau betri lífskjör sem nágrannalöndin búa við. ASÍ bendir á að aftur á móti sé mikilvægt að líta til þess að háar skattar endurspegla oft á tíðum hærri tilfærslur í gegnum skattkerfið líkt og tíðkast hefur á Norðurlöndum og færist í aukana á Íslandi.