Ósammála um hvað gerðist á fundinum

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra.
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra. mbl.is/Kristinn

Innanríkisráðuneytinu annars vegar og ríkislögreglustjóra og ríkissaksóknara hins vegar bera ekki saman um hvað var ákveðið á fundi sem fram fór að morgni 24. ágúst 2011, en þá lá fyrir beiðni frá FBI um að fulltrúar þeirra kæmu til Íslands til að ræða við mann sem vildi koma upplýsingum á framfæri.

Innanríkisráðuneytið birti í dag minnisblað sem lagt á ríkisstjórnarfundi í morgun og á sameiginlegum fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis. Minnisblaðið fjallar um komu fulltrúa FBI hingað til lands árið 2011.

Fram kemur í minnisblaðinu að í lok júní 2011 barst innanríkisráðuneytinu réttarbeiðni frá dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna, að beiðni FBI og saksóknara New York-ríkis í Bandaríkjunum þar sem óskað var eftir aðstoð og samvinnu vegna rannsóknar á sakamáli þar ytra sem laut að því að brjótast eða „hakka“ sig inn í tölvukerfi íslenskra stjórnvalda til að valda stjórnvöldum vandræðum.

Í júlí 2011 gerðu fulltrúar ríkislögreglustjóra ráðuneytinu grein fyrir því að FBI hefði óskað þess að þeir kæmu til fundar í Bandaríkjunum vegna upplýsinga sem taldar voru tengjast málinu og vörðuðu Ísland. Eftir það fóru fulltrúar frá Ríkislögreglustjóra til fundar við fulltrúa FBI í Bandaríkjunum. Að kvöldi 23. ágúst fékk íslenska lögreglan um það vitneskju að íslenskur maður hefði gefið sig fram við bandaríska sendiráðið á Íslandi og óskaði eftir að koma á framfæri upplýsingum til bandarískra yfirvalda sem vörðuðu málið.  FBI óskaði í kjölfarið eftir aðstoð íslensku lögreglunnar í málinu og að koma til Íslands í þeim tilgangi að funda með upplýsingaaðilanum. Með í för yrðu bandarískir saksóknarar frá New York og Virginiu.

Ríkissaksóknari var strax upplýstur um beiðni FBI og daginn eftir hafði ríkissaksóknari samband við  innanríkisráðuneytið og gerði grein fyrir stöðu málsins. Í beinu framhaldi var haldinn fundur hjá ríkissaksóknara með þátttöku fulltrúa ríkislögreglustjóra og innanríkisráðuneytisins.  

Í greinargerð ríkissaksóknara og ríkislögreglustjóra segir um efni fundarins: „Á fundinum var ákveðið að heimila komu FBI til landsins og lagðar línur um fyrirkomulagið.  Tryggt yrði að íslensk lögregluyfirvöld stýrðu aðgerðum hér á landi. Farið yrði rækilega yfir málið með fulltrúum FBI og bandarísku saksóknurunum áður en rætt yrði við upplýsingaaðilann. Um væri að ræða fund með viðkomandi þar sem hann hafði óskað eftir að koma á framfæri upplýsingum.  Ekki yrði um yfirheyrslu að ræða en íslenska lögreglan þyrfti m.a. að tryggja réttarstöðu mannsins ef til þess kæmi að upplýsingar sem hann veitti bentu til þess að hann hefði framið refsiverðan verknað.  Málið færi þá í nýjan farveg og hann fengi réttarstöðu grunaðs. Í kjölfar fundarins var FBI tilkynnt að þeim væri heimilt að koma til landsins.“

Í minnisblaði innanríkisráðuneytisins, sem birt var í dag, segir hins vegar um þennan fund: „Að morgni 24. ágúst 2011 hafði ríkissaksóknari samband við innanríkisráðuneytið og gerði grein fyrir fyrirhugaðri komu bandarískra FBI fulltrúa ásamt saksóknurum til Íslands þá um kvöldið. Gerði ríkissaksóknari ráðuneytinu jafnframt grein fyrir því að koma þeirra myndi vera í tengslum við að íslenskur maður hafði kvöldið áður gefið sig fram við bandaríska sendiráðið á Íslandi. Kvaðst hann vita af lögreglurannsókn bandarískra og íslenskra stjórnvalda og sagðist hann vilja starfa með bandarískum yfirvöldum við að uppljóstra málið.

Samdægurs fór fulltrúi ráðuneytisins af þessu tilefni á fund sem ríkissaksóknari hafði boðað með fulltrúum ríkislögreglustjóra. Á fundinum var farið yfir þróun málsins frá því að réttarbeiðnin barst í lok júní 2011. Kom fram að erfitt væri að meta framhaldið og hvernig bregðast ætti við heimsókninni án þess að fá frekari upplýsingar um tilgang hennar. Þess ber að geta að skilningur ráðuneytisins var ekki sá að veitt hefði verið heimild fyrir komu fulltrúanna til Íslands. Fyrir lá að þeir höfðu óvænt boðað komu sína og voru á leiðinni til landsins. Þannig er skilningur ráðuneytisins á þessu atriði annar en sá sem fram kemur í sameiginlegri samantekt ríkislögreglustjóra og ríkissaksóknara, dags. 4. febrúar 2013.“

Innanríkisráðuneytið segir að það hafi í framhaldi fengið upplýsingar um að réttarbeiðni hafi snúist um rannsókn sem væri hluti af sakamálarannsókn í Bandaríkjunum sem beindist  m.a. að Wikileaks.

„Í ljósi þessara upplýsinga um tilgang komu bandarísku fulltrúanna hingað til lands yfirfór ráðuneytið að nýju réttarbeiðnina sem barst í lok júní. Að þeirri yfirferð lokinni, samdægurs, óskaði innanríkisráðherra eftir fundi með ríkissaksóknara þar sem hann gerði grein fyrir því, að eftir frekari athugun málsins væri það mat ráðuneytisins að fyrirhugaðar aðgerðir FBI hér á landi rúmuðust ekki innan efni réttarbeiðninnar frá því í lok júní 2011, enda vörðuðu aðgerðirnar rannsókn á öðru sakamáli en því sem réttarbeiðnin laut að.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert