Borgarstjórn samþykkti á fundi sínum í dag að veita 160 milljónir í viðbótarframlög Reykjavíkurborgar og ríkis til tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpu árin 2013–2016. Árlegt viðbótarframlag borgarinnar til Hörpu á þessum tíma verður 73,6 milljónir króna.
Þetta kemur fram á vef Reykjavíkurborgar. Þar segir að einnig verði eigendalánum upp á 794 milljónir breytt í stofnframlög til Hörpu. Aðgerðirnar muni tryggja rekstur Hörpu til framtíðar. Með aðgerðunum sé tekið á skuldum Hörpu sem komnar séu til vegna byggingarkostnaðar sem ekki hafi verið áætlað fyrir þegar ríkið og Reykjavíkurborg tóku bygginguna yfir og rekstrarkostnaðar sem var vanáætlaður í byrjun.
Þá segir að í ítarlegri greinargerð sem fylgi tillögunni sé farið yfir forsögu tónlistarhússins, byggingarsögu þess og rekstur. Þar segi m.a. að farið sé í aðgerðirnar nú til að tryggja sjálfbæran rekstrargrundvöll hússins. Rekstur tónlistarhússins hafi gengið vel en tekið hafi tíma að byggja upp ráðstefnuhluta rekstursins.
„Rekstraráætlanir gera ráð fyrir að tekjur vegna ráðstefnuhalds fari stigvaxandi á tímabilinu til 2016. Markaðssetning Hörpu sem ráðstefnuhúss er í fullum gangi og hafa bókanir aukist mikið. Harpa hefur sannað menningarlegt gildi sitt og vakið verðskuldaða athygli á Reykjavík út fyrir landsteinana. Húsið hefur haft góð áhrif á tónlistarlífið í landinu og er orðið eitt helsta kennileiti Reykjavíkur.
Rekstur tónlistarhússins hefur verið tekinn í gegn á liðnum misserum. Sjö rekstrarfélög voru sameinuð í eitt sem heitir Harpa og lóðarfélagið Situs var skilið frá rekstrinum. Þá hefur verið hagrætt í rekstri sem nemur um 250 milljónum króna á tímabilinu 2012–2016,“ segir í tilkynningunni.
„Lögð hefur verið fram raunhæf rekstrar- og aðgerðaáætlun til fimm ára og miða áætlanir við hófsamar spár um tekjur.
Með endurskipulagningu rekstrar, bættum áætlunum um reksturinn og viðbótarframlagi sem er ákvarðað tímabundið á árunum 2012–2016 eru væntingar bundnar við að starfsemi í húsinu verði sjálfbær og með miklum blóma í framtíðinni,“ segir ennfremur.