„Við undirrituðum stofnanasamning í kvöld við Landspítalann,“ sagði Elsa B. Friðfinnsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, en samningafundi hjúkrunarfræðinga og Landspítalans lauk um kl. 23 í kvöld með undirritun samnings.
„Við sammældust um að greina ekki frá innihaldi samningsins opinberlega strax. Við viljum að hjúkrunarfræðingar og stjórnendur á spítalanum heyri innihalds samningsins fyrst. Við munum kynna þetta innan spítalans á morgun. Þetta eru margir hjúkrunarfræðingar og margir vinnustaðir. Við reiknum með að þeir sem sögðu upp hafi tíma til fimmtudagskvölds að taka ákvörðun um hvort þeir dragi uppsagnir til baka,“ sagði Elsa.
Landspítalinn bauðst upphaflega til að verja 370 milljónum í að hækka laun hjúkrunarfræðinga. Það þýddi 296 milljónir til hjúkrunarfræðinga þegar búið væri að draga frá launatengd gjöld. Yfir 90% hjúkrunarfæðinga höfnuðu þessu tilboði á fundi í byrjun síðustu viku
Elsa vildi í kvöld ekkert segja um hvort eða hversu mikið þessi upphæð hefði hækkað eftir að viðræður hófust aftur í gær.
Hjúkrunarfræðingar hafa í kjaradeilunni lagt áherslu á að hækka þurfi laun kvennastétta. Stjórnvöld tóku að nokkru leyti undir þetta sjónarmið þegar ákveðið var að setja fjármuni í sérstakt jafnlaunaátak.
Elsa sagði í síðustu viku að hún gerði sér alveg grein fyrir að sá munur sem þyrfti að jafna yrði ekki jafnaður í einu skrefi. Það þyrfti að stíga stærra skref núna. Síðan vildu hjúkrunarfræðingar fá einhverja staðfestingu á því að næsta skref yrði stigið í miðlægum kjarasamningum í byrjun næsta árs og þá hugsanlega að þriðja skrefið yrði stigið í stofnmanasamningum þar á eftir.
Um 1.200 stöðugildi hjúkrunarfræðinga eru á Landspítala. Um 300 hjúkrunarfræðingar hafa sagt upp störfum og áttu flestir þeirra að hætta 1. mars. Nær allir hjúkrunarfræðingar sem starfa á skurðdeildum og gjörgæsludeild sögðu upp störfum.