Fyrstu umræðu um frumvarp um stjórn fiskveiða lauk í kvöld. Á morgun verður annarri umræðu um frumvarp að nýrri stjórnarskrá haldið áfram.
Þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks telja óraunhæft að klára að afgreiða stjórnarskrána á þessu þingi, en segjast vera tilbúnir til að afgreiða afmarkaða þætti hennar fyrir þinglok. Stjórnarflokkarnir hafa ekki fallist á þetta og ætla að halda áfram umræðu um málið, en búið er að setja frumvarpið á dagskrá þingfundar á morgun.
Drög að áliti Feneyjanefndarinnar voru birt á vef Alþingis í dag. Þingmenn Hreyfingarinnar þrýsta fast á að umræðu um stjórnarskrána verði haldið áfram og frumvarpið verði afgreitt á þessu þingi.
Frumvarp um stjórn fiskveiða var afgreitt til atvinnuveganefndar í kvöld. Nefndin mun fara yfir frumvarpið og væntanlega kalla eftir áliti sérfræðinga og hagsmunaaðila.