Að hluta tekið úr rekstrinum

Stofnanasamningurinn sem undirritaður var við hjúkrunarfræðinga í gærkvöldi er að hluta fjármagnaður með því fjármagni sem Landspítalinn hefur til reksturs á fjárlögum.

Áður hafði ríkisstjórnin lagt til nálægt 400 milljónir aukalega vegna jafnlaunaátaks og byggði fyrra tilboð, sem hjúkrunarfræðingar höfnuðu, á því framlagi.

Björn Zoëga, forstjóri Landspítala háskólasjúkrahús segir ríkisstjórnina hafa sagt fyrir nokkru að um frekari viðbótarfjárveitingar verði ekki að ræða vegna stofnanasamnings við hjúkrunarfræðinga. Það sem við bætist í þeim samningi sem kynntur verður hjúkrunarfræðingum í dag kemur því úr rekstrinum.

Þurfa að hliðra til í rekstrinum

-En kemur það ekki niður á tækjakaupum og öðru í rekstrinum?

„Við þurfum að hliðra til í rekstrinum. Kannski þurfum við að færa fjármögnun á milli ára en við erum ekki komin svo langt ennþá að við getum sagt til um hvernig það verður.“

Björn er vongóður um að hjúkrunarfræðingar dragi uppsagnir sínar til baka, en um 300 þeirra hafa sagt upp störfum. „Við verðum bara að sjá til hvernig það verður. Allir þurfa náttúrulega bara að fá að meta þetta og skoða þetta,“ segir Björn og bætir við: „Þetta var uppgefin ástæða fyrir því að fólk sagði upp - að það væri ekki búið að endurnýja stofnanasamninginn. Nú er búið að því.“

„Ég held að það geti verið í hærra lagi“

Spurður út í hækkun í prósentum sagði Björn: „Það er ákveðin víxlverkun í þessu. Það er ákveðin röðun á fólki. Þetta lendir ekki alveg flatt á alla. Það er aldrei þannig með stofnanasamning. Það eru ákveðnar áherslur sem eru sem koma frá stéttarfélaginu og sem koma frá spítalanum að einhverju leyti. Við erum ekki alveg með þetta á hreinu. Ég held að það geti verið í hærra lagi. Svo metur fólk þetta mismunandi líka. Svo hafa sumir verið að leggja ofan á 3,25% sem koma um næstu mánaðarmót þannig að það er aðeins ruglingur í þessu enda segir meðaltalstala ekki neitt fyrir þann einstakling sem sagt hefur upp. Fólk þarf að máta sig inn í þetta.“

Björn Zoëga forstjóri Landspítala háskólasjúkrahúss.
Björn Zoëga forstjóri Landspítala háskólasjúkrahúss. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert