Fulltrúar væntanlegra starfsmanna Farsýslunnar, hinnar nýju stjórnsýslustofnunar samgöngumála sem taka á til starfa 1. júlí næstkomandi, afhentu Ögmundi Jónassyni innanríkisráðherra í dag ósk um endurskoðun á nafni hennar. Alls hefur 81 starfsmaður skrifað undir listann af þeim 130 starfsmönnum sem munu starfa hjá Farsýslunni.
Óskin er rökstudd með bréfi sem stór hluti starfsmanna Flugmálastjórnar, Umferðarstofu, Siglingastofnunar og Vegagerðar og starfa munu hjá hinni nýju stofnun hafa skrifað undir. Í bréfinu segir að leitað hafi verið álits meðal annars meðal auglýsingastofnum, almannatengslasérfræðingum og fleiri á nafninu Farsýslan og hafi ítrekað komið í ljós að það þyki óþjált, fornt, óskýrt, lítt aðlaðandi og valdslegt. Bent er á að mismæli og ruglingur geti átt sér stað meðal annars við nafn Fjársýslunnar, að því er segir á vef ráðuneytisins.
„Ósk starfsmannahópsins er sú að við lagabreytingar sem framundan eru í tengslum við stofnsetningu hinna nýju stofnana verði sett inn breyting þannig að nafnið Farsýslan víki til dæmis fyrir Samgöngustofu eða Samgöngustofnun. Einar Magnús Magnússon, upplýsingafulltrúi Umferðarstofu, og Marta Jónsdóttir, yfirlögfræðingur Umferðarstofu, afhentu ráðherra bréfið og undirskriftalistann. Sögðu þau að verkefnahópur sem undirbýr lagabreytingar, svokallaðan bandorm, vegna hinna nýju stofnana, gæti tekið nafnabreytinguna inn í drög að frumvarpi sínu. Þau tóku fram á fundinum með ráðherra að almenn ánægja væri með skipulagsbreytingarnar og að starfsmenn hlökkuðu til að starfa fyrir hina nýju stofnun.
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra kvaðst myndu taka málið til athugunar í samráði við stýrihóp fulltrúa ráðuneytisins og stofnananna fjögurra sem undirbýr breytingarnar,“ segir ennfremur á vef innanríkisráðuneytisins.