Hvergi í Evrópu fjölgaði ferðamönnum jafn mikið og á Íslandi á síðasta ári samkvæmt skýrslu Ferðamálaráðs Evrópu (ETC).
Í frétt frá Ferðamálastofu kemur fram að almennt séð átti ferðaþjónusta í Evrópu góðu gengi að fagna í fyrra og fjölgaði komum erlendra ferðamanna um 4%, sem kemur í kjölfar 7% fjölgunar árið 2011.
Eftirspurn frá fjærmörkuðum hélst áfram góð og fleiri Evrópubúar ferðuðust einnig á milli landa innan álfunnar. Þannig er ferðaþjónustan ein fárra atvinnugreina sem sýnir vöxt í álfunni og leggur þannig lóð sitt á vogarskálina við að létta undir í því erfiða efnahagsástandi sem mörg lönd glíma við, að því er segir á vef Ferðamálastofu.
„Þau lönd sem sýndu mesta fjölgun voru áfangastaðir sem ETC metur sem vaxandi áfangastaði (emerging destinations). Ísland trónir örugglega á toppnum með tæp 20%, þá kemur Litáen með 12% og Rúmenía með 10%. Stærri áfangastaðir áttu einnig góðu gengi að fagna. Þannig fjölgaði erlendum ferðamönnum í Þýskalandi um 8%, um 5% á Spáni og 5% í Austurríki,“ segir á vef Ferðamálastofu.