Fyrsta björgun Þórs í nótt

Varðskipið Þór kom að góðum notum í Þistilfirði í nótt.
Varðskipið Þór kom að góðum notum í Þistilfirði í nótt. mbl.is/Ómar Óskarsson

Landhelgisgæslunni barst í nótt neyðarkall frá 25 tonna eikarbáti í Þistilfirði. Leki var kominn að bátnum og voru ræst út björgunarskip, þyrla og varðskipið Þór sem losnaði úr slipp á Akureyri í gær og var á leið í gæsluverkefni. Gæslumönnum telst til að þetta sé fyrsta björgun Þórs síðan skipið kom til landsins frá Síle.

Neyðarkallið barst um eittleytið í nótt, en samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni virkuðu ekki dælur í bátnum og sjórinn flæddi smám saman inn í vélarrúmið. Einn maður var um borð. Björgunarskip Landsbjargar á Raufarhöfn, Gunnbjörg, var boðuð á staðinn auk þess sem varðskipinu Þór var beint þangað og þyrlan send af stað frá Reykjavík.

Leiðindaveður og erfiðar aðstæður

Gunnbjörgin kom fyrst á vettvang enda styst fyrir þá að fara en þegar á reyndi komu þeir hvorki dælu né mannskap á milli, en leiðindaveður mun hafa verið í Þistilfirði í nótt. Þegar Þór bar að tókst varðskipsmönnum að koma bæði mannskap og dælu yfr á bátinn og var þá unnt að losa vatnið.

Þyrlunni var þá snúið við þótt hún væri komin langleiðina. Aldrei drapst á vél bátsins sem hélt því sjó og gat siglt fyrir eigin afli til Raufarhafnar í fylgd varðskipsins. Var komið til hafnar laust fyrir klukkan 6 í morgun og taldist aðgerð þá lokið.

Segja má að tímasetningin hafi verið heppileg því Þór hefur verið í .þurrkví hjá Slippnum á Akureyri síðan í janúarlok en hélt af stað þaðan í gær. Að sögn gæslunnar var því varla búið að bleyta skipið þegar kalla þurfti til þess. Mun þetta var fyrsta eiginlega björgunin sem nýja varðskipið sinnir síðan það kom til landsins frá Síle í árslok 2011.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert