Kynferðisofbeldi rætt í Selfosskirkju

Selfosskirkja.
Selfosskirkja. Mbl.is/ Kristinn

„Við vitum það að fullt af okkar fólki á Selfossi og Suðurlandsundirlendinu hefur sótt sér aðstoð bæði hjá Stígamótum og Kvennaathvarfinu. Með því að fá fagfólkið hingað viljum við opna betur á þetta í okkar nærumhverfi og vonumst til að fá fólk til að taka þátt,“ segir sr. Óskar Hafsteinn Óskarsson prestur í Selfosskirkju.

Á næstunni efna nágrannakirkjur á Suðurlandi til tveggja fræðslukvölda í safnaðarheimili Selfosskirkju, í samstarfi við Kvennaathvarfið og Stígamót. Sigþrúður Guðmundsdóttir frá Kvennaathvarfinu flytur erindi sem ber yfirskriftina „Ofbeldi í nánum samböndum - vitneskja, viðbrögð“ og Guðrún Jónsdóttir frá Stígamótum flytur erindið „Bætum hlustunarskilyrðin - um viðbrögð samfélagsins við kynferðisofbeldi.“

Erum við þátttakendur í þöggun?

Aðspurður segir Óskar að tilefnið sé umræðan sem opnast hefur í samfélaginu að síðustu um kynferðisofbeldi. „Það hefur ýmislegt gengið á hjá okkur í Selfosskirkju síðustu misseri svo við höfum sett okkur sérstakar vinnureglur um að vera með þessi mál á dagskrá á hverju ári og fá reglulega til okkar aðila til að uppfræða presta og starfsfólk kirkjunnar um þetta.“

Eftir fjölmiðlaumfjöllun í ársbyrjun um kynferðisbrot gegn börnum segir Óskar að starfsfólk Selfosskirkju hafi rætt málin og spurt sig ýmissa spurninga. „Ég held núna, eftir að þessar hetjur stigu fram og sögðu frá, séum við mörg að velta fyrir okkur: Getur verið að þetta sé í fullum gangi í okkar samfélagið í dag og við séum líka þátttakendur í einhverri þöggun? Getur verð að eftir 20 ár verði horft til baka á okkur og spurt: Hvar voruð þið?“

Vanmáttur gagnvart erfiðum málaflokki

Óskar segir þetta hluta af því að samfélagið taki ábyrgð á þessum viðkvæma málaflokki í sameiningu og þar eigi kirkjan að vera í forystusveit. Hann segist merkja það greinilega að fólk sé opnara en áður fyrir því að ræða þessi mál og fullt tilefni sé til að grípa þann bolta á lofti. Hefur starfsfólk leik- og grunnskóla á Selfossi sérstaklega verið hvatt til að taka þátt.

„Ég segi sem prestur að þótt að svona mál hafi komið inn á borð til manns þá finnur maður líka fyrir vanmætti sínum og ég held að margir kennarar og fleiri kannist við þetta öryggisleysi um hvernig á að bregðast við þegar svona kemur upp. Þetta er okkar viðleitni til að halda áfram að rjúfa þögnina.“

Fræðslukvöldin eru ókeypis og öllum opin. Þau fara fram þriðjudagana 19. og 26. febrúar klukkan 20.00. Bæði kvöldin verður flutt um hálftímalangt erindi en eftir það eru fyrirspurnir og umræður.

Séra Óskar Hafsteinn Óskarsson
Séra Óskar Hafsteinn Óskarsson mbl.is/Sigurður Bogi
Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins.
Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir
Guðrún Jónsdóttir talskona Stígamóta
Guðrún Jónsdóttir talskona Stígamóta mbl.is/Eyþór
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert