Stofnanasamningur hjúkrunarfræðinga á Landspítala, sem var undirritaður í gærkvöldi, er afturvirkur og gildir frá 1. janúar 2013. Í honum eru leiðréttingar launa hjúkrunarfræðinga varanlegar í anda jafnlaunaátaks ríkisstjórnarinnar. Samningurinn felur í sér að allir klínískir hjúkrunarfræðingar fá hækkanir sem eru á bilinu 4,8% til 9,6% og taka mið af menntun hvers og eins.
Þetta kemur fram á vef Félags íslenska hjúkrunarfræðinga. Þar segir að samningurinn hafi verið kynntur fyrir hjúkrunarfræðingum í dag.
„Í ljósi fjölmargra ábendinga hjúkrunarfræðinga munu stjórnendur sannreyna launaröðun hjúkrunarfræðinga sinnar deildar fyrir 1. maí 2013 og samræma röðunina milli eininga spítalans. Samkvæmt yfirlýsingu stjórnenda mun það þó ekki leiða til lækkunar launa,“ segir í tilkynningu á vef FÍH.
Þá segir að starfshópur með fulltrúum beggja aðila verði skipaður. Verkefni hans verði að meta niðurstöður starfsumhverfiskönnunar Landspítala 2013 og gera tillögur til úrbóta á vinnu- og starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga.
FÍH segir, að velferðarráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra hafi gefið út yfirlýsingu um næstu skref í útfærslu jafnlaunaátaks ríkisstjórnarinnar. Samkvæmt yfirlýsingunni verði unnið áfram að greiningu, mati og aðgerðaáætlunum tengdum launamun kynjanna.
„Ríkisstjórnin hefur ákveðið að stíga fyrstu skrefin innan heilbrigðisstofnana. Í starfi nefndar fjármálaráðherra, sem vinnur að greiningu og mati á launamun kynjanna mun verða haft samráð við Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga,“ segir í tilkynningunni.
Þá segir, að stjórnendur LSH muni greiða hjúkrunarfræðingum viðbótarlaun með vísan til reglna fjármálaráðuneytisins. Um sé að ræða tímabundna álagsgreiðslu fyrir nóvember og desember 2012.
„Fjárhæð álagsgreiðslu er kr. 30.000 á mánuði til hjúkrunarfræðinga í 100% starfi. Skilyrði fyrir álagsgreiðslu er að hjúkrunarfræðingur starfi sem slíkur á klínískri deild og sé í ótímabundinni ráðningu,“ segir í tilkynningu FÍH.