Heildarskerðingar aflaheimilda vegna frumvarps til laga um stjórn fiskveiða nema um 38 þúsund þorskígildistonnum á næsta fiskveiðiári og fara upp í 45 þúsund þorskígildistonn fiskveiðiárið 2015/2016 samkvæmt áætlunum stjórnvalda.
Þetta segir Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ, um áhrif frumvarps atvinnuvegaráðherra um stjórn fiskveiða. Fyrstu umræðu um frumvarpið lauk í gær og er það nú komið til nefndar.
„Ef ákvæði frumvarpsins hefðu verið komin til framkvæmda á síðasta fiskveiðiári, þegar við veiddum rúm 1440 þúsund tonn, hefði skerðingin numið yfir 100 þúsund tonnum,“ segir Friðrik á heimasíðu LÍÚ.
„Frumvarpið er áþekkt því sem lagt var fram í fyrra. Þá vöruðu um 80 umsagnaraðilar eindregið við því að það næði fram að ganga. Enginn eðlismunur er á þessu nýja frumvarpi og því ljóst að áhrifin verða mjög alvarleg,“ segir Friðrik.
Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að hlutdeild í þorski skerðist um 9,5%, í steinbít um 9,8%, í ufsa um 7,2% og ýsu um 6,9%. Þá er gert ráð fyrir að aflahlutdeild í öðrum tegundum skerðist á næsta fiskveiðiári um 5,3%, 6,5% á fiskveiðiárinu 2014/2015 og um 7% eftir það. Þá er gert ráð fyrir að helmingur aukningar á afla í þorski fari til ríkisins af úthlutun umfram 240 þúsund tonn.
„Við teljum að afnema eigi allar skerðingar aðrar en þær sem koma til vegna bóta til þeirra sem verða fyrir áföllum vegna viðkomubrests í fiskistofnum, eins og til dæmis í hörpudiskinum í Breiðafirði. Þá er það ósanngjarn að skerða sumar fisktegundir meira en aðrar eins og gert er ráð fyrir,“ segir Friðrik.
„Veiðigjaldið er mörgum útgerðum gríðarlega þungbært. Til viðbótar bætist að verð á mörkuðum hafa verið að gefa eftir. Því er ljóst að þær skerðingar sem boðaðar eru ganga ekki upp," segir Friðrik og bætir við að skerðingin sé tekin af verðmætustu tekjunum þar sem að fjárfestingin og fastur kostnaður breytist ekki.