„Refsiaðgerðir munu ekki buga Ísland“

Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra.
Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra. mbl.is/Ómar

„Refsiaðgerðir myndu valda skaða en fyrst og fremst fyrir andrúmsloftið - þær myndu vera stöðuna verri hvað varðar möguleikana á að leysa deiluna. En refsiaðgerðir munu ekki buga Ísland,“ er haft eftir Steingrími J. Sigfússyni, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, á fréttavef breska ríkisútvarpsins BBC, þar sem fjallað er um makríldeiluna.

Fram kemur í fréttinni að Evrópusambandið hafi hótað Íslandi og Færeyjum refsiaðgerðum vegna makríldeilunnar. Íslendingar séu hins vegar þeirrar skoðunar að slíkar refsiaðgerðir hefðu lítil sem engin áhrif. Íslendingar selji mest af sjávarafurðum sínum til annarra ríkja og stærsti markaðurinn sé Rússland. Einungis 11% séu seld til Bretlands.

Fyrir vikið telji Íslendingar að í versta falli yrði breytingar á því hvert íslenskar sjávarafurðir yrðu seldar. Refsiaðgerðir yrðu ekki til þess að koma í veg fyrir útflutning þeirra. Haft er eftir Vilhjálmi Vilhjálmssyni, forstjóra HB Granda, að ef lokað yrði á innflutning á íslenskum sjávarafurðum til Bretlands þá yrðu Bretar að fá þær annars staðar frá. Sjávarafurðir frá Íslandi myndu þá einfaldlega fylla skarð þeirra afurða.

Einnig er rætt við Árna Finnsson, formann Náttúruverndarsamtaka Íslands, sem segist ekki hafa trú á því að Evrópusambandið muni beita Ísland refsiaðgerðum vegna makríldeilunnar. Slíkar aðgerðir eigi við í tilfelli ríkja eins og Sýrlands eða Líbíu undir fyrrverandi stjórnarherrum en ekki vinaþjóðir eins og Íslendinga.

Fréttamaður BBC, Kevin Keane, víkur síðan sögunni að varðskipinu Óðni sem er í slipp í Reykjavík og rifjar upp að hann hafi tekið þátt í þorskastríðunum gegn Bretum á sínum tíma. Makríldeilan snúist fremur um viljastyrk en beinar aðgerðir og það hvað Íslendingar hafi verið reiðubúnir að gera með Óðni sýni vel hversu mikill viljastyrkur þeirra sé.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka