Lögreglunni í Borgarfirði og Dölum barst tilkynning um að um 300 kíló af dínamíti og öðru sprengiefni væri geymt í gámi við íbúðarhús á sveitabæ í Hvalfjarðarsveit.
Eftir að staðfest hafði verið að um sprengiefni var að ræða, sem væri farið að „svitna“ vegna aldurs og því orðið stórhættulegt, voru sérsveitarmenn ríkislögreglustjóra kallaðir til og fóru þeir ásamt lögreglu á staðinn. Var sprengjusveit Gæslunnar kölluð út í kvöld að beiðni sérsveitar ríkislögreglustjóra vegna málsins.
Tveir af sprengjusérfræðingum LHG fóru á vettvang ásamt lögreglunni eftir að staðfest hafði verið að um sprengiefni var að ræða, að því er Landhelgisgæslan segir.
Í tilkynningu frá lögreglu kemur fram að íbúar í umræddu húsi hafi verið látnir yfirgefa húsið og íbúðarhús í næsta nágrenni hafi einnig verið rýmt á meðan sprengiefnið verður fjarlægt. Talið sé að sprengiefnið hafi verið geymt þarna í tæpt ár. Ekki er talið að sprengiefnið sé illa fengið, heldur sé um afgangsefni að ræða hjá fyrirtæki sem hætt sé rekstri.
Að sögn lögreglu er þarna um stórhættulegt athæfi að ræða þar sem gamalt sprengiefni sem farið er að svitna, eins og það er kallað, getur sprungið hvenær sem er. Sprengiefni á aldrei að geymast nærri íbúðarhúsum, sama í hvernig ástandi það er.
Borist hafði tilkynning um að sprengiefni gæti verið í þessum sama gámi fyrir rúmu ári síðan og var málið kannað en þá reyndist gámurinn vera tómur.