Tímamótasamstaða um þjóðaröryggi

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra.
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra. mbl.is/Ómar

Þingmenn frá öllum flokkum á Alþingi vinna nú sameiginlega að því að móta þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland, sem er sú fyrsta frá stofnun lýðveldisins. Þetta kemur fram í árlegri skýrslu utanríkisráðherra um utanríkis- og alþjóðamál.

„Um öryggi þjóðarinnar hefur einnig náðst tímamótasamstaða í þinginu,“ segir Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra í skýrslunni.

Nefnd um mótun þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland hóf störf í upphafi árs 2012. Nefndin er skipuð þingmönnum allra stjórnmálaflokka á Alþingi og veitir þingmaðurinn Valgerður Bjarnadóttir nefndinni formennsku.

Í skýrslunni segir, að nefndinni beri skv. ályktun Alþingis að fjalla um og gera tillögur að stefnu sem tryggi þjóðaröryggi Íslands á grundvelli her- og vopnleysis.

Von á tillögum á næstu vikum

„Nefndin hefur leitað víða fanga í upplýsingaöflun sinni. Hún hefur hitt fjölmarga innlenda og erlenda sérfræðinga á sviði öryggismála, skoðað þjóðaröryggisstefnur annarra landa og heimsótti t.a.m. norsk yfirvöld í því samhengi síðastliðið haust. Þá hefur nefndin til viðmiðunar áhættumatsskýrslu fyrir Ísland frá árinu 2009 og alþjóðaskuldbindingar Íslands, þ.á m. á sviði afvopnunarmála. Nefndinni er einnig ætlað að taka afstöðu til þingsályktunar frá árinu 2009 um stofnun sérfræðiseturs á sviði utanríkis- og öryggismála og frumvarps til laga um friðlýsingu Íslands fyrir kjarnorkuvopnum og bann við umferð kjarnorkuknúinna farartækja,“ segir í skýrslunni.

Þá kemur fram, að þingsályktun um mótun þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland geri ráð fyrir að utanríkisráðherra leggi fram tillögu að þjóðaröryggisstefnu Íslands fyrir Alþingi þar sem byggt sé á tillögum nefndarinnar. Fyrirhugað er að nefndin skili tillögum sínum á næstu vikum.

Varnarsamstarfið við Bandaríkin hefur styrkst

„Nú er nefnd skipuð þingmönnum frá öllum þingflokkum að störfum við að móta nýja þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland. Sú vinnur eftir tillögu sem ég lagði fram fyrir rúmu ári. Samstaða af þessu tagi hefði verið óhugsandi fyrir fáeinum misserum og ég bíð nú, bjartsýnn að vanda, eftir niðurstöðum hennar sem vænta má innan tíðar. Samstarf Norðurlanda í öryggismálum er nú klappað í stein með sögulegri samstöðuyfirlýsingu, og í því tilliti er táknrænt að Svíar og Finnar hyggjast taka þátt í loftrýmiseftirliti á Íslandi. Þá hefur varnarsamstarfið við Bandaríkin verið útfært nánar og eflt í átt að nýjum hættum, þar með talið þeim sem snúa að norðurslóðum,“ segir utanríkisráðherra í skýrslunni.

Í skýrslunni segir ennfremur, að varnarsamstarfið við Bandaríkin hafi styrkst á nýjan leik, þar sem aukin áhersla sé lögð á nýja áhættuþætti, svo sem vefvá, hryðjuverkaógn, þróun öryggismála á norðurslóðum og viðbrögð gegn slysum og umhverfisvá. Samstarfið innan Atlantshafsbandalagsins standi áfram traustum fótum og aukið samstarf Norðurlandanna í öryggis- og varnarmálum er einnig ánægjuefni. Þar beri hæst á umliðnu ári vilji finnskra og sænskra stjórnvalda til þátttöku í loftrýmiseftirliti á Íslandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert