Ýmislegt sem hangir á spýtunni

 „Við náðum þarna samningi. Við höfum sagt að töldum okkur þurfa stærra fyrsta skref í þessu jafnlaunaátaki og einhverja festu í framhaldinu og náðum svo saman í gærkvöldi og munum kynna þetta í dag. Þá kemur í ljós hvað hangir á þessu öllu saman,“ sagði Elsa B. Friðfinnsdóttir, formaður Félags hjúkrunarfræðinga spurð út í endurskoðaðan stofnanasamning sem félagið gerði við Landspítala háskólasjúkrahús í gærkvöldi.

Samningurinn verður kynntur í dag fyrir deildarstjórum kl. 11. Fyrir hjúrkunarfræðingum á Hringbraut kl. 13 og fyrir hjúkrunarfræðingum í Fossvogi kl. 17.

„Við sammæltumst um það í gær að kynna þetta fyrst fyrir hjúkrunarfræðingum, en við vitum að eftir fundinn klukkan eitt þá fer þetta út,“ sagði Elsa og bætti við: „Það er ýmislegt sem hangir þarna á spýtunni sem fólk þarf að heyra í heild.“

-Var frestur hjúkrunarfræðinga til að draga uppsagnir sínar til baka framlengdur?

„Það var búið að gefa lengri frest til miðnættis annað kvöld og það stendur. Þess vegna ætlum við að reyna að kynna þetta í dag og gerum það svo fólk hafi smá svigrún til þess að meta stöðuna hver og einn.“

Spurð nánar um efnisinnihald samningsins sagði Elsa: „Það er bara eðlilegt að þeir sem að samningurinn tekur til að þeir heyri fyrstir um hvað hann snýst eða hvað er í samningnum.“

-En þú ert sátt við samninginn?

„Miðað við allt og allt. Maður vill auðvitað alltaf meira en það er þannig í samningum að maður verður einhvern tíma að horfast í augu við það að lengra verður ekki komist.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert