„ESB hundleitt á EES-samningnum“

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra.
Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Bara svo ég tali umbúðalaust: ESB er orðið hund­leitt á EES, finnst mér stund­um. Það er orðið hund­leitt á tví­hliða samn­ing­un­um við Sviss,“ sagði Össur Skarp­héðins­son ut­an­rík­is­ráðherra á Alþingi í dag í umræðum um skýrslu hans um ut­an­rík­is- og alþjóðamál. Fyr­ir vikið hefði Evr­ópu­sam­bandið sýnt það með verk­um sín­um að það hefði mjög lít­inn vilja til þess að leggja sig mikið fram „til þess að búa til ein­hvers kon­ar sér­stöðu“ fyr­ir þau EES-ríki sem stæðu fyr­ir utan sam­bandið.

„Ég gæti túlkað það með þeim hætti að þau [ríki Evr­ópu­sam­bands­ins] vilji miklu frek­ar bara fá þau inn í Evr­ópu­sam­bandið. Mér finnst það stund­um vera með þeim hætti af hátt­semi þeirra. En það ligg­ur al­veg ljóst fyr­ir að vilj­inn til þess að veita und­anþágur inn­an EES, það hafi dregið úr hon­um. Og það er bók­staf­lega sagt að það sé miklu auðveld­ara fyr­ir þessi ríki að ganga inn í Evr­ópu­sam­bandið,“ sagði Össur. Þá hefði það bein­lín­is komið fram af hálfu Evr­ópu­sam­bands­ins að tví­hliða samn­ing­ar eins og Sviss hefði í dag við sam­bandið yrðu ekki í boði í framtíðinni.

Lít­ill vilji hjá ESB fyr­ir sérmeðferð

Össur svaraði þar fyr­ir­spurn frá Vig­dísi Hauks­dótt­ur, þing­manni Fram­sókn­ar­flokks­ins, sem vakti at­hygli á því að í skýrslu ráðherr­ans kæmi fram að sí­fellt gengi verr að fá Evr­ópu­sam­bandið til þess að fall­ast á und­anþágur fyr­ir Ísland inn­an EES-sam­starfs­ins og viður­kenna sér­stöðu lands­ins í því sam­bandi sem eyju, til að mynda varðandi raf­orku­mál og sam­göngu­mál. Spurði hún ráðherr­ann hvernig hann gæti á sama tíma haldið því fram að Ísland gæti fengið ein­hverja sérmeðferð ef það gengi inn í sam­bandið ein­mitt vegna þess að landið hefði sér­stöðu sem eyja.

Þá gagn­rýndi Vig­dís þau um­mæli ut­an­rík­is­ráðherra harðlega að Evr­ópu­sam­bandið væri orðið leitt á EES-samn­ingn­um. Samn­ing­ur­inn kvæði á um þær regl­ur sem væru í gildi í sam­skipt­um Íslands og sam­bands­ins og það þýddi ekk­ert að segj­ast vera hund­leitt á mál­inu eins og þegar samið hefði verið um fyrsta Ices­a­ve-samn­ing­inn. Össur sagðist ein­fald­lega vera að lýsa eig­in upp­lif­un. Þá sagði hann að vilji Evr­ópu­sam­bands­ins væri vissu­lega mjög lít­ill þegar kæmi að sérmeðferð fyr­ir ný aðild­ar­ríki en það yrði samt að láta á það reyna.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka