„Flugfélög skaðabótaskyld fyrir eldfjöll á Íslandi“

Nokkrar af þotum Ryanair.
Nokkrar af þotum Ryanair. mbl.is/reuters

Írska lággjaldaflugfélagið Ryanair hefur ákveðið að hækka fargjöld enn frekar vegna ótta við auknar bótakröfur farþega í framhaldi af dómi Evrópudómstólsins í janúar. 

Með ákvörðun sinni opnaði dómstóllinn þann möguleika fyrir farþega að sækja bætur vegna tafa í flugi sem á sér stað af öðrum utanaðkomandi aðgerðum sem flugfélög geta engin áhrif haft á.

Þar á meðal er hægt að fara fram á fjárbætur tefjist ferð vegna verkfallsaðgerða flugumferðarstjóra eða sérlega slæms veðurs.

Ryanair hefur harmað ákvörðun Evrópudómstólsins og segist ekki eiga annarra kosta völ en að hækka sætisverð um hálfa evru frá næstu mánaðarmótum vegna hennar. Kemur sú hækkun til viðbótar tveggja evra hækkun sem Ryanair hafði áður lagt á hvert sæti sem framlag í flugbótasjóð Evrópusambandsins.

„Að gera flugfélög skaðabótaskyld fyrir eldfjöll á Íslandi, snjókomu á Heathrow og reglubundnum vinnustöðvunum í Frakklandi og á Spáni jafngildir því í raun að gera Toyota og Audi ábyrg fyrir umferðarhnútum í London,“ segir í yfirlýsingu frá Ryanair af þessu tilefni. Þar segir að gera megi ráð fyrir stórfjölgun bótakrafna vegna dóms Evrópudómstólsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert