Kröfurnar gegn kjarna EES-samstarfsins

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Þetta er bara eitt lítið dæmi um það að þegar menn stíga inn í svona djúpt samstarf á sífellt fleiri sviðum þá mun það leiða smám saman til meira og meira framsals ríkisvalds sem hlýtur að vera þungamiðjan í umræðunni um Evrópusambandið fyrir okkur Íslendinga,“ sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, á Alþingi í dag í umræðum um árlega skýrslu utanríkisráðherra um utanríkismál.

Bjarni vísaði þar til þróunarinnar innan Evrópusambandsins og hvernig ríki þess hefðu smám saman þurft að sætta sig við það að framselja vald yfir ýmsum málum til stofnana sambandsins vegna efnahagserfiðleikanna innan þess sem þau hefðu annars ekki verið reiðubúin að gera. Ræddi hann þetta í tengslum við kröfur Evrópusambandsins um að Ísland og önnur aðildarríki EES-samningsins sem stæðu utan sambandsins gengjust undir vald stofnana þess, til að mynda vegna sameiginlegs fjármálaeftirlits.

Bjarni lagði áherslu á að þetta gengi gegn EES-samstarfinu sem grundvallaðist á svonefndu tveggja stoða kerfi þar sem aðildarríki samstarfsins sem stæðu utan Evrópusambandsins væru ekki undir stofnanir sambandsins sett. Standa yrði vörð um það fyrirkomulag og ekki kæmi til greina að framselja íslenskt ríkisvald til stofnana sem Ísland væri ekki aðili að. Hann lagði einnig áherslu á að jafnvel þótt Ísland væri innan Evrópusambandsins yrðu áhrif landsins þar innanborðs aldrei mikil.

Össur Skarphéðinsson,utanríkisráðherra brást við ummælum Bjarna og spurði hann hvernig hann ætlaði að bregðast við því ef Íslendingum stæði ekki EES-samningurinn lengur til boða vegna þess að þeir vildu ekki samþykkja þær breytingar á samstarfinu sem það kallaði á. Sagði hann að Bjarni yrði að svara þessu í ljósi þess að hann væri ekki venjulegur þingmaður heldur formaður stjórnmálaflokks sem kannanir bentu til þess að hefði mest fylgi.

Bjarni svaraði því til að honum þætti undirgefni utanríkisráðherra við kröfur Evrópusambandsins full-mikil. Það stæði ekki upp á Íslendinga að svara því, heldur sambandið hvernig eigi að leysa það þegar slíkar kröfur gengju í berhögg við EES-samstarfið. Það væri hins vegar síðara tíma verkefni að svara því hvernig yrði brugðist við því ef EES-samningurinn væri ekki lengur í boði. Verkefnið núna væri að standa vörð um það fyrirkomulag sem samningurinn grundvallaðist á.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert