Árni Pétur Jónsson, forstjóri Iceland, segir að meginástæðan fyrir því að verðlag í Iceland hafi hækkað um 10% frá því í haust sé að þá hafi verslunin verið að opna og þess vegna hafi verslunin boðið kynningartilboð á mörgum vörum. Hann fullyrðir að verslunin sé eftir sem áður að bjóða lægsta verð á matvörumarkaði.
Í könnun ASÍ er verð á vörum í dag borið saman við verðkönnun sem gerð var í september. Samkvæmt könnuninni er mest hækkunin í versluninni Iceland, ríflega 10% og í Krónunni 9%. Í verslunum 10-11 hefur vörukarfan hækkað um 6,4%, í Hagkaupum um 5,6% og í Bónus um 4,2%. Í Nóatúni og Samkaupsverslununum nemur hækkunin 2-3%. Í versluninni Víði hefur heildarverð vörukörfunnar hækkað um 1% síðan í haust þrátt fyrir að flestir vöruflokkar aðrir en kjötvörur hafi hækkað nokkuð í verði. Séu kjötvörur undanskildar úr körfunni nemur hækkunin 4% í Víði. Svipaða sögu er að segja úr Nettó en þar hefur heildarverð körfunnar lækkað síðan í september um 2,8%, séu kjötvörurnar hins vegar undanskildar hefur verð körfunnar hækkað um 2,3%.
„Í september voru við nýbúnir að opna okkar fyrstu verslun og voru að keyra mikið af kynningartilboðum. Við vorum með mjög sterk tilboð sem ég held að allir hafi vitað að við vorum með tímabundin tilboð sem gátu ekki varað lengi. Að taka þau og bera þau og bera saman við stöðuna núna og segja að það hafi orðið umtalsverð hækkun segir enga sögu,“ segir Árni Pétur.
Árni Pétur segir að prósentutölur segir takmarkaða sögu um vöruverð. Hann segir að Iceland fylgist með verði hjá samkeppnisaðilum og í könnun sem gerð var í þessari viku hafi komið í ljós að af um 1100 vörutegundum hafi tæplega 900 verðið lægstar í Iceland.