Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í nógu að snúast á kvöld- og næturvaktinni við að hafa afskipti af ökumönnum í misjöfnu ástandi.
Klukkan 17 í gær var bíll stöðvaður í Breiðholti. Reyndist maðurinn sem þar sat undir stýri áður hafa verið sviptur ökuréttindum. Þegar lögregla spurði hvort hann hefði á sér fíkniefni reyndist svo vera, en hann var þó ekki undir áhrifum.
Rúmlega eitt yfir miðnætti var annar bíll stöðvaður í Breiðholti og reyndist þar einnig vera ökumaður sem sviptur hafði verið ökuréttindum. Hann var að auki grunaður um aða aka undir áhrifum fíkniefna og var með fíkniefni meðferðis.
<span>Tuttugu mínútum síðar var þriðji bíllinn stöðvaður í Breiðholti. Ökumaður er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna.</span>
Þá voru tveir ökumenn til viðbótar sem stöðvaðir voru í nótt grunaðir um ölvun við akstur en við blástur reyndist ölvun undr mörkum. Aksturinn var þó stöðvaður, bílunum lagt í stæði og lyklar teknir í vörslu lögregluvarðstjóra.
<span>Loks var ölvaður maður handtekinn við N1 Ártúnshöfða á þriðja tímanum í nótt. Maðurinn er vistaður í fangageymslu meðan hann sefur úr sér áfengisvímuna.</span>