Orkuveita Reykjavíkur mun ekki flytja starfsemi sína annað þrátt fyrir að OR stefni að því að selja selja höfuðstöðvar sínar. Þá segir OR að það sé ástæðulaust að óttast að fyrirtækið sé að stofna sér í vanda svipaðan þeim sem ýmsir sveitarsjóðir rötuðu í við hrunið.
OR segir að sá eðlilegi ótti að fyrirtækið sé að stofna sér í vanda svipaðan þeim sem ýmsir sveitarsjóðir rötuðu í við hrunið er ástæðulaus. Bent er á að leigugjald sveitarsjóðanna fyrir eignir sem þeir ýmist seldu eða lögðu inn í fasteignafélög hafi oftast nær verið gengisbundið, enda fasteignafélögin fjármögnuð með erlendu lánsfé.
„Það er ekki raunin í þessu tilfelli. Leigan er vissulega verðtryggð en í íslenskum krónum, eins og um 80% af tekjum Orkuveitunnar,“ segir í samantekt sem OR hefur birt í tengslum við sölu höfuðstöðvanna. Í samantektinni eru rakin nokkur sjónarmið sem eiga erindi í umræðuna.
Þar kemur fram að OR starfi samkvæmt aðgerðaáætlun, svokölluðu Plani, sem var samþykkt vorið 2011. Hún miðar að því að brúa 50 milljarða gat í sjóðstöðu fyrirtækisins á árabilinu 2011 til og með 2016. Hluti Plansins sé eignasala sem nemi 10 milljörðum króna og komi í kassann á þessum tíma til að eiga fyrir afborgunum. Húsin á Bæjarhálsi hafi verið á sölulista frá því í janúar 2011.
Varðandi flutning segir OR að það standi ekki til enda séu nokkrir hlutar húsnæðisins mjög sérhæfðir og það væri dýrt að flytja starfsemina úr þeim.
„Það er ekki loku fyrir það skotið, teljist það skynsamlegt síðar, að Orkuveitan flytji, en tilboðið í húseignirnar gerir ráð fyrir því að Orkuveitan eigi val um kaupa eignirnar til baka eftir 10 ár og svo aftur eftir 20 ár,“ segir á vef OR.
Loks kemur fram að menn hafi deilt lengi um byggingarkostnað höfuðstöðva Orkuveitunnar sem hafi verið umdeild bygging en þjóni fyrirtækinu vel.
„Úttektarnefnd eigenda Orkuveitunnar, sem hafði það hlutverk að grafast fyrir um orsakir bágrar fjárhagsstöðu fyrirtækisins, skilaði skýrslu sinni í október 2012 og komst að þeirri niðurstöðu að húsbyggingin hefði kostað 8.466 m.kr. á verðlagi ársins 2010. (Hægt er að reikna upp verðlag síðan og afskriftir á móti.) Í bókum Orkuveitunnar er verðmæti húseignarinnar u.þ.b. 600 m.kr. lægra en tilboðsfjárhæðin. Verði gengið frá samningi á grundvelli fyrirliggjandi tilboðs verður sú fjárhæð því bókfærð sem hagnaður Orkuveitunnar við söluna,“ segir á vef OR.