Væntir liðsinnis frá framsóknarmönnum

Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.
Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins. mbl.is

Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, beindi þeirri fyrirspurn til forsætisráðherra á Alþingi í morgun hvort ráðherrann óttaðist ekki að stjórnarskrármálið yrði klárað með naumum meirihluta á yfirstandandi þingi og síðan hafnað í kjölfarið af nýju þingi að loknum kosningum.

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagðist ekki ætla að gefa sér að málið yrði afgreitt með naumum meirihluta. Hún rifjaði upp að framsóknarmenn hefðu tekið vel í að gerðar væru ýmsar breytingar á stjórnarskránni. Sömu breytingar og sjálfstæðismenn hefðu stöðvað fyrir kosningarnar 2009. Sagðist hún því vænta liðsinnis þingmanna Framsóknarflokksins vegna málsins.

Vigdís fagnaði orðum Jóhönnu og sagði um stórtíðindi að ræða. Ummælin fælu í sér stefnubreytingu og að ekki stæði lengur til að keyra málið í heild í gegn. Forsætisráðherra væri með þessu að taka í útrétta sáttahönd framsóknarmanna.

Jóhanna sagðist ekki hafa talið sig vera að flytja stórtíðindi. Framsóknarmenn hefðu í það minnsta sett fram tillögur um breytingar á stjórnarskránni sem væri meira en sjálfstæðismenn hefðu gert. Sagðist hún einfaldlega vona að hægt yrði að ljúka málinu í samstarfi við framsóknarmenn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert