Vindmyllur Landsvirkjunar gangsettar

Bryndís Hlöðversdóttir stjórnarformaður Landsvirkjunar, Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, Steingrímur J. …
Bryndís Hlöðversdóttir stjórnarformaður Landsvirkjunar, Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, Steingrímur J. Sigfússon og Margrét Arnardóttir, verkefnisstjóri vindorku, við Búrfell í dag. Ljósmynd/Landsvirkjun

Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, gangsetti í dag vindmyllur Landsvirkjunar á „Hafinu“ ofan við Búrfell.

Hörður Arnarson sagði við tilefnið að eftirspurn eftir endurnýjanlegum orkugjöfum í heiminum hefði stóraukist og að ákveðin tímamót væru í orkuvinnslu á Íslandi við tengingu vindmyllanna tveggja inn á raforkukerfi Íslendinga. „Litið til framtíðar gæti vindorka orðið þriðja stoðin í orkukerfi Landsvirkjunar, ásamt vatnsafli og jarðvarma. Áhugavert er að athuga hvernig vindorka nýtist Íslendingum í samspili með vatnsorku en sveigjanleiki vatnsorkunnar getur aukið verðmæti vindorkunnar.“

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, sagðist í ræðu sinni fagna þessu framtaki Landsvirkjunar sem hann vonaði að myndi takast vel. Ráðherra hrósaði framsýni og metnaði fyrirtækisins með þessu verkefni og kvað Landsvirkjun vera til fyrirmyndar að feta þessa braut.

Rauntímaupplýsingar um raforkuvinnsluna, vindstig og vindátt á Hafinu, fyrir ofan Búrfell þar sem vindmyllurnar eru staðsettar, eru birtar á heimasíðu Landsvirkjunar og gefst þannig almenningi tækifæri til að fylgjast með þeim frá degi til dags. Þar má fylgjast með afli, snúningshraða, vindátt og stefnu. Sjá nánar hér:

Uppsetning vindmyllanna er liður í rannsóknar- og þróunarverkefni Landsvirkjunar á hagkvæmni vindorku á Íslandi.

Vindmyllurnar eru framleiddar af þýska fyrirtækinu Enercon, sem sérhæfir sig í framleiðslu gírlausra vindmylla til notkunar á landi. Starfsmenn Enercon hófu uppsetningu á vindmyllunum í desember sl. og hafa undanfarið unnið að forrekstrarprófunum og er nú komið að formlegri gangsetningu þar sem þær vinna raforku inn á hið íslenska raforkukerfi.

Vindmyllurnar eru hvor um sig 900 kW en samanlögð áætluð raforkuframleiðsla þeirra er um 5,4 GWst á ári. Hæð mastursins er 55 metrar og hver spaði er um 22 metrar að lengd. Þegar spaðinn er í efstu stöðu er því heildarhæð hverrar vindmyllu 77 metrar.

Mastur vindmyllanna er 55 metra hátt og hver spaði 22 …
Mastur vindmyllanna er 55 metra hátt og hver spaði 22 metrar á lengd. Í efstu stöðu spaðans er hæð myllunnar því 77 metrar, hærri en Hallgrímskirkjuturn. Mynd/Landsvirkjun
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert