30-40 sveitarfélög heppilegur fjöldi

Egilsstaðir
Egilsstaðir mbl.is/Sigurður Bogi

Hugsanlega séu 30-40 sveitarfélög hæfilegur fjöldi sveitarfélaga á Íslandi miðað við íbúafjölda og stærð. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu Íslandsbanka um sveitarfélög á Íslandi. Skýrslan er unnin af sveitarfélagateymi Íslandsbanka.

Í skýrslunni kemur fram að frá árinu árinu 1990 til ársins 2013 hefur sveitarfélögum á Íslandi fækkað um tæp 64% en þau hafa farið úr 204 í 74. Í byrjun árs 2012 var íbúatala fimm sveitarfélaga undir 100 en undir 1.000 í 42 sveitarfélögum. Bent er á mikilvægi þess að þróun í sameiningum sveitarfélaga haldi áfram þannig að eftir standi færri og sterkari, vel rekin sveitarfélög út um allt land.

Brottfluttir hafa verið fleiri en aðfluttir á öllum landsvæðum nema á höfuðborgarsvæðinu síðustu tvö ár. Síðustu tíu ár hafa tæplega 2.000 manns flust frá Vestfjörðum, um 1.600 frá Norðurlandi eystra og um 1.100 frá Norðurlandi vestra. Þá hefur verið töluverður tilflutningur innan landsvæða á Norðurlandi eystra, Austurlandi og Suðurlandi þar sem fólk flytur í auknum mæli af jaðarsvæðum inn í þéttbýliskjarnana. Þessi tilflutningur veldur ekki fólksfækkun á svæðunum en getur orðið til þess að minni sveitarfélög leggist af.

Flest sveitarfélög ráða við skuldir sínar

„Á uppgangsárunum 2006 og 2007 varð samtals rúmlega 82 milljarða króna hækkun á skuldum sveitarfélaganna að undanskildum lífeyrisskuldbindingum sem samsvarar um 47% hækkun. Frá árinu 2009 hefur fjárhagsstaða sveitarfélaganna batnað enda hafa flest þeirra lagt áherslu á að greiða niður skuldir. Rekstur 72% sveitarfélaga ætti að standa undir núverandi skuldbindingum.

Hins vegar eru nokkur sveitarfélög með sterk B-hluta-félög sem eru þess valdandi að rekstur þeirra í heild nýtur góðs af og gengur betur en ella. Þá eru landsvæðin misskuldsett, allt frá því að vera með skuldahlutfall frá 126,8% (Norðurland vestra) upp í 270,7% (Suðurnes). Höfuðborgarsvæðið er næstskuldsettasta landsvæðið en þar er hlutfallið 258,4%,“ segir í tilkynningu frá Íslandsbanka.

Stöðugildum í sveitarfélögunum hefur fjölgað mikið síðustu ár. Árið 1992 voru stöðugildin um 8.500 en um 19.600 á árinu 2012. Stöðugildum hefur því fjölgað um 130% síðastliðin 20 ár. Fjöldi stöðugilda á hverja 100 íbúa er mismunandi eftir landsvæðum, flest eru stöðugildin á Norðurlandi vestra, 8,2 og fæst á Suðurnesjum eða 4,9.

Tekjur á íbúa mestar á Austurlandi en fá samt mikla styrki úr Jöfnunarsjóði

Íbúar á Austurlandi og Norðurlandi vestra skila mestum tekjum til sinna sveitarfélaga pr. íbúa. Austurland fær engu að síður þriðja mesta framlagið úr Jöfnunarsjóði. Á Suðurnesjum eru tekjur á íbúa án framlaga Jöfnunarsjóðs lægstar á landinu en þar hefur atvinnuleysi verið mest á landinu og því áhugavert að sveitarfélagið fær næstlægsta framlagið úr Jöfnunarsjóði. Íbúar á höfuðborgarsvæðinu fá minnsta framlagið á íbúa.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka