90 ár síðan fyrsta konan tók sæti á Alþingi

Ingibjörg H. Bjarnason, alþingismaður.
Ingibjörg H. Bjarnason, alþingismaður. mbl.is

Forseti Alþingis, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, minntist þess við upphaf þingfundar í dag að 90 ár eru á þessum degi frá því að fyrsta konan, Ingibjörg H. Bjarnason skólastjóri, tók sæti á þingi. Það gerðist við setningu 35. löggjafarþings 15. febrúar árið 1923 en fjórum dögum síðar var kjörbréf hennar samþykkt og hún vann eið sinn að stjórnarskránni. Hún hafði þá verið kjörin í landskjöri sumarið áður 8. júlí 1922.

Ingibjörg var fyrst kjörin á þing fyrir Kvennalistann eldri en gekk síðan til liðs við Íhaldsflokkinn og varð loks þingmaður Sjálfstæðisflokksins þegar hann var stofnaður með sameiningu Íhaldsflokksins og Frjálslynda flokksins árið 1929. Ingibjörg sat á þingi til ársins 1930.

Ásta Ragnheiður rifjaði af þessu tilefni meðal annars upp ummæli Jóhannesar Jóhannessonar, þáverandi alþingismanns, í framsöguræðu hans fyrir áliti kjörbréfanefndar en þar sagði hann: „Þetta verður í fyrsta sinn sem kona tekur sæti á Alþingi, og ég vil láta í ljós gleði mína fyrir þeim atburði. Ég óska háttvirtum sjötta landskjörnum þingmanni, Ingibjörgu H. Bjarnason, farsældar og ánægju í starfi sínu og þess að hluttaka kvenna í löggjafarstarfinu megi verða landi og lýð til blessunar.“

„Nú, 90 árum síðar, getum við með fullri vissu sagt að sú ósk framsögumannsins hafi sannarlega ræst. Í tilefni þessa dags er á veggnum hér fyrir aftan forseta málverk eftir Gunnlaug Blöndal í eigu Alþingis af Ingibjörgu H. Bjarnason. Íslenskum konum óska ég til hamingju með daginn og raunar Íslendingum öllum,“ sagði Ásta Ragnheiður ennfremur af þessu tilefni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert