Skráð atvinnuleysi í janúar 2013 var 5,5%, en að meðaltali voru 8.686 atvinnulausir í janúar og fækkaði atvinnulausum um 272 að meðaltali frá desember.
Um síðustu áramót rann út bráðabirgðaákvæði sem gerði atvinnuleitendum, sem misstu starf sitt eftir 1. mars 2008, kleift að fá greiddar atvinnuleysistryggingar í allt að 48 mánuði. Um áramótin breyttist því atvinnuleysisbótarétturinn úr 48 mánuðum í 36 mánuði og um 1.300‐1.400 atvinnuleitendur luku þar með bótarétti sínum.
Í gegnum átaksverkefnið Liðsstyrk er unnið að því að finna þessum einstaklingum störf við hæfi hjá ríki, sveitarfélögum og á almennum vinnumarkaði. Þeir sem höfðu lokið minna en 42 mánuðum af bótarétti sínum fá jafnframt sérstakan biðstyrk í allt að 6 mánuði til viðbótar (36‐42 mánuði). Þeir þurfa að staðfesta atvinnuleit á sama hátt og þeir sem eru á atvinnuleysisskrá og teljast því áfram með í atvinnuleysistölum. Þeir sem verið hafa atvinnulausir lengur en 42 mánuði fá ekki slíkan styrk, þurfa því ekki að staðfesta atvinnuleit og teljast því ekki til hóps atvinnulausra. Um er að ræða nálægt 750 manns í síðastnefnda hópnum, sem er meginskýringin á minnandi atvinnuleysi milli desember og janúar, segir í frétt á vef Vinnumálastofnunar.
Körlum á atvinnuleysisskrá fækkaði um 190 að meðaltali og konum um 82 og var atvinnuleysið 5,2% meðal karla og 5,9% meðal kvenna. Atvinnulausum fækkaði að meðaltali um 292 á höfuðborgarsvæðinu en fjölgaði um 20 á landsbyggðinni.
Atvinnuleysið var 5,8% á höfuðborgarsvæðinu. Á landsbyggðinni var atvinnuleysið 5% og er óbreytt frá desember. Mest var atvinnuleysið á Suðurnesjum, 9,5%. Minnst var atvinnuleysið á Norðurlandi vestra, 2%.
Í janúar voru samtals 1.067 manns skráðir í vinnumarkaðsúrræði. Þessi úrræði eru greidd af Atvinnuleysistryggingasjóði en viðkomandi einstaklingar eru í vinnu og teljast því ekki með í atvinnuleysistölum.
2.565 án atvinnu í meira en eitt ár
Alls voru 9.289 manns atvinnulausir í lok janúar. Þeir sem voru atvinnulausir að fullu voru hins vegar 8.315. Fjöldi þeirra sem hafa verið atvinnulausir lengur en 6 mánuði samfellt er nú 4.032 og eru um 43% þeirra sem voru á atvinnuleysisskrá í janúar. Fjöldi þeirra sem verið hafa atvinnulausir í meira en eitt ár samfellt var 2.565 í janúarlok.
Langtímaatvinnulausum fækkar verulega skv. báðum þessum mælikvörðum frá desember til janúar sem skýrist að stærstum hluta af styttingu bótatímabils um áramótin úr 48 mánuðum í 36.
18% atvinnulausra eru ungmenni
Alls voru 1.649 á aldrinum 16‐24 ára atvinnulausir í lok janúar 2013 eða um 18% allra atvinnulausra í janúar. Í lok janúar 2012 var fjöldi atvinnulausra ungmenna 1.930 og hefur því fækkað um 281 milli ára í þessum aldurshópi.
Alls voru 1.685 erlendir ríkisborgarar án atvinnu í lok janúar, þar af 978 Pólverjar eða um 58% þeirra útlendinga sem voru á skrá í lok mánaðarins. Flestir atvinnulausra erlendra ríkisborgara voru starfandi í gistingu og veitingastarfsemi, 253.
Í janúarmánuði bárust tvær hópuppsagnir til Vinnumálastofnunar þar sem 33 manns var sagt upp störfum. Alls fengu 56 launamenn greitt úr Ábyrgðarsjóði launa í janúar, flestir í þjónustustarfsemi ýmiss konar.
Ekki útlit fyrir miklar breytingar í febrúar
Atvinnuleysi eykst oft í febrúar þegar eftirspurn eftir vinnuafli er með minnsta móti. Í fyrra jókst atvinnuleysið úr 7,2% í janúar í 7,3% í febrúar. Vinnumálastofnun gerir þó ráð fyrir því að atvinnuleysi breytist ekki mikið milli janúar og febrúar í ár þar sem mikið er um ráðningar fólks af skrá í gegnum 3. Liðsstyrksverkefnið og vinnur það gegn árstíðarbundinni hækkun atvinnuleysis. Því er gert ráð fyrir að atvinnuleysi í febrúar verði á bilinu 5,3%-5,7%.