Birgitta segir „klámskjöld“ Ögmundar óframkvæmanlegan

Birgitta Jónsdóttir.
Birgitta Jónsdóttir.

Birgitta Jónsdóttir alþingismaður skrifar grein í dag í breska blaðið The Guardian og segir hugmyndir Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra um að girða fyrir að ósiðsamlegt efni á netinu sjáist á Íslandi með svonefndum „klámskildi“ bæði villandi og óframkvæmanlegar.

Birgitta segist virða það við Ögmund að hann sé prinsippmaður og hugrakkur. „En hann er kominn langt út í móa í tilraunum sínum til að girða Ísland skildi til að stöðva að klám streymi til landsins,“ segir hún í grein sinni og varar við því, að ritskoðun á netinu jafngildi því að skorður séu settar við tjáningafrelsi.

Hún segir það í sjálfu sér göfugt að vilja vernda börn fyrir klámi og spilafíkla fyrir veðmálasíðum, „en á kostnað hvers?“ spyr hún. „Staðreyndin er sú, að lagafrumvarpið hefur þegar leitt til þess að mörg fyrirtæki hafa spurt sig tvisvar hvort þau eigi að hýsa starfsemi sína á Íslandi. Ekki vegna þess að þau styðja klám, heldur vegna þess að þau óttast að lögin geti þróast í allsherjar ritskoðun eins og þá sem er eignuð löndum á borð við Kína og Saudi-Arabíu,“ segir Birgitta meðal annars í grein sinni í the Guardian.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert