„Ekkert vandamál í sjálfu sér“

Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, var í efsta sæti í …
Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, var í efsta sæti í forvali VG í Reykjavík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það hefur nú ekkert gengið mjög erfiðlega að setja saman lista,“ segir Daði Heiðrúnar Sigmarsson, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs í Reykjavík, í samtali við mbl.is en félagsfundi sem halda átti á vegum félagsins í gærkvöld var frestað með skömmum fyrirvara í gær. Þar átti að ganga frá framboðslistum VG fyrir þingkosningarnar í apríl. Fundurinn átti einnig að fara fram fyrir viku en var einnig frestað þá.

Daði segir fundinum fyrir viku hafa verið frestað þar sem ekki hafði tekist að ljúka endanlegri vinnu fyrir hann og hafa samband við alla á listunum en í gær hafi honum verið frestað þar sem komið hafi í ljós með skömmum fyrirvara að hvorki Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra né Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra hafi getað mætt.

„Hvorki Katrín né Svandís komust. Katrín var á fundi vegna frumvarps sem hún er að setja fram um breytingar á LÍN, sem er stórt og mikið mál, og Svandís var vant við látin þannig að við ákváðum að það væri ekki boðlegt að kynna listann ef þær væru ekki á staðnum. Sérstaklega ef það kæmu fram breytingatillögur eða eitthvað slíkt,“ segir Daði. Spurður hvort tillögur að framboðslistum liggi fyrir segir hann að þær hafi legið fyrir í 2-3 vikur.

„Þannig að það er ekkert vandamál í sjálfu sér,“ segir hann. Finna þurfi nýjan fundartíma áður en landsfundur VG fer fram um aðra helgi. Það verði því væntanlega um miðja næstu viku. Aðspurður segir hann ekki rétt sem haldið hafi verið fram að til standi að reyna að koma Birni Val Gíslasyni alþingismanni ofar á lista en árangur hans í forvalinu, sem fram fór í nóvember síðastliðnum, segði til um, en hann endaði þar í sjöunda sæti.

„Nei, það er ekkert til í því,“ segir Daði og bætir því við að tekið hafi verið mið af forvalinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert