„Hvernig getur lýðræðið nokkurn tímann verið til skaða ef við göngum út frá því að grundvallarrétturinn til ákvarðanatöku hvíli hjá þjóðinni en ekki fulltrúum hennar hvort sem er á Alþingi, í sveitarstjórnum eða á forsetastóli? Málskotsrétturinn gengur ekki út á neitt annað en heimild til að leita til þjóðarinnar,“ segir Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, á heimasíðu sinni um athugasemdir Feneyjanefndar Evrópuráðsins við frumvarp að nýrri stjórnarskrá.
Vísar hann til athugasemda nefndarinnar við málskotsréttinn og að hætta sé á því að forseti lýðveldisins misnoti hann til þess að vísa óvinsælum lögum í þjóðaratkvæði sé hann á öndverðum meiði við meirihluta Alþingis og skaðað þannig sitjandi ríkisstjórn. „Þetta þykir mér undarleg afstaða. Hvaða mál gæti hér verið um að tefla? Hvaða mál geta verið þess eðlis að það sé hættulegt sitjandi stjórnvöldum að þeim sé skotið til þjóðarinnar?“
Ögmundur segir að stjórnlagaráðið, sem samdi þá tillögu sem frumvarp að nýrri stjórnarskrá byggist á, hafi viljað efla beint lýðræði og því sé hann hjartanlega sammála. „Ég er að vísu ósáttur við þá tillögu stjórnlagaráðs að heimila ekki þjóðinni að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um skattamálefni eða þjóðréttarskuldbindingar. Það breytir því ekki að verulega rýmkun hvað varðar aðkomu almennings að ákvörðunum um almannahag, er að finna í tillögum stjórnlagaráðs.“
Hann segist hins vegar aldrei hafa talið milligöngu forsetans með málskotsréttinum réttu leiðina til þess að koma á beinu lýðræði. Hins vegar sé rétturinn engu að síður mikilvægur öryggisventill og stjórnlagaráð hafi gert ráð fyrir að hann héldi sér þrátt fyrir að einnig væri kveðið á um beina aðkomu þjóðarinnar að ákvarðanatöku.