Tveir Íslendingar sem sitja í fangelsi í Danmörku fyrir smygl á fíkniefnum hafa verið handteknir af lögreglu í fangelsinu grunaðir um aðild að smygli á 27 kílóum af amfetamíni.
Á vef Ekstra Bladet kemur fram að mennirnir tveir, sem eru 25 og 37 ára, hafi verið dæmdir í fimm og átta ára fangelsi fyrir smygl á fimm kílóum af e-töflum. Þeir eru nú grunaðir um að eiga aðild að smygli á 27 kg af amfetamíni en fleiri Íslendingar tengjast því máli.
Í september í fyrra handtók lögreglan átta Íslendinga sem taldir voru tengjast smygli á 34 kg af amfetamíni. Er nú talið að tvímenningarnir tengist því máli en 38 ára Íslendingur, sem var handtekinn á Spáni, er talinn höfuðpaur í málinu.
Þegar hefur danskur karlmaður frá Fjóni verið dæmdur í 12 ára fangelsi fyrir hlut sinn í smyglinu á 27 kílóunum en það var hann sem tók á móti amfetamíninu á heimili sínu í Óðinsvéum. Íslendingarnir þrír eru hins vegar taldir hafa smyglað efnunum frá Hollandi í nóvember 2011.
Íslendingarnir tveir verða í dag leiddir fyrir dómara í Kaupmannahöfn þar sem gæsluvarðhalds verður krafist yfir þeim.