Dæmi eru um að fólk skrái sig til heimilis í auðum íbúðum í þeim tilgangi að svíkja bætur út úr almannatryggingakerfinu. Þá eru dæmi um að fólk flytjist utan en fái áfram bætur hér á landi sem það á ekki rétt á. Tryggingastofnun hefur takmarkaðar heimildir til að afla upplýsinga ef grunur vakar um svik.
Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar um eftirlit Tryggingastofnunar með bótasvikum. Í skýrslunni segir að bótasvik séu helst tilkomin vegna þess að greiðsluþegar og umsækjendur um bætur veita rangar upplýsingar, t.d. um búsetu, hjúskaparstöðu og tekjur. Að mati Tryggingastofnunar er algengast að sami markhópur misnoti almannatryggingakerfið. Einkum sé um að ræða foreldra sem skrái sig sem einstæða þótt þeir búi í raun með barnsfeðrum/mæðrum sínum eða sambýlingum sem skrá lögheimili rangt í þjóðskrá. Einnig eigi í hlut einstaklingar sem fái greidda heimilisuppbót, mæðra‐ eða feðralaun og aðrar greiðslur, s.s. húsaleigubætur og barnabætur, þótt þeir búi með öðrum einstaklingi, t.d. fullorðnum börnum eða sambýlingi sem er ekki skráður með lögheimili á sama stað.
Þar sem íbúar eru ekki skráðir á fasteignanúmer í þjóðskrá getur verið torvelt að sjá tengsl þeirra við aðra sem raunverulega búa með þeim, í þeim tilvikum sem þeir eru sjálfir rétt skráðir. Dæmi eru t.d. um að auðar íbúðir séu skráðar sem lögheimili. Þá eru dæmi um að greiðsluþegar flytjist búferlum til annarra landa án þess að tilkynna það til Þjóðskrár Íslands og eru því ranglega skráðir með lögheimili á Íslandi.
Tryggingastofnun hefur heimild til að aflað persónuupplýsinga frá Ríkisskattstjóra, lífeyrissjóðum, Atvinnuleysistryggingasjóði, Vinnumálastofnun og sambærilegum stofnunum erlendis. Tryggingastofnun hefur ekki heimild til að afla upplýsinga frá Útlendingastofnun og hún hefur takmarkaðar heimildir til að afla upplýsinga frá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Dæmi eru um að fyrrverandi námsmenn skrái lögheimili sitt hér á landi þótt þeir vinni erlendis og afli sér þannig réttinda sem þeir eiga ekki tilkall til.
Tryggingastofnun hefur heldur ekki heimild til að óska upplýsinga frá aðilum utan ríkiskerfisins, s.s. fjármálafyrirtækjum eða sveitarfélögum. Leikskólar búa t.d. yfir upplýsingum um hvort tiltekið barn sé þar í vistun og þar með hvort fjölskyldan búi á landinu. Í skýrslunni segir að leikskólar gætu þeir veitt upplýsingar um hvort báðir foreldrar sækja barn. Þetta geti rennt stoðum undir grun um sambúð, sér í lagi ef annar aðilinn er með lögheimili í öðrum landshluta.
Þá gætu heimildir Tryggingastofnunar til að nálgast upplýsingar um fjölda starfsmanna á vinnustöðum og hverjir vinna þar skipt máli við ákvörðun bóta. Stofnunin hefur fengið ábendingar um að á vinnustöðum starfi fleiri en gefið er upp en þeir sem stunda svarta vinnu eru oft einnig á bótum hjá stofnuninni. Þá myndi það efla eftirlit Tryggingastofnunar ef hún gæti kannað fjárhagslega stöðu greiðsluþega og önnur atriði sem máli skipta við ákvörðun bótagreiðslna að sama marki og systurstofnanir hennar á Norðurlöndum.
Tryggingastofnun hefur í gegnum tíðina látið hlutaðeigandi ráðuneyti í té tillögur að lagabreytingum sem myndu auka heimildir hennar til upplýsingaöflunar en án árangurs hingað til, að því er kemur fram í skýrslunni. Árið 2012 vann stofnunin drög að nýjum eftirlitskafla vegna endurskoðunar á almannatryggingalögunum en velferðarráðuneytið hefur ekki enn tekið afstöðu til tillagnanna.
Tryggingastofnunin hefur mun takmarkaðri heimildir til að afla persónuupplýsinga um greiðsluþega og umsækjendur um bætur en systurstofnanir hennar í Danmörku, Noregi og Svíþjóð.
Að mati trygginga‐ og vinnumálastofnunar Bretlands (Department of Work and Pension – DWP) mátti rekja 2% af heildarútgjöldum bótagreiðslna til bótasvika og mistaka árin 2011‒12, þar af 0,7% til bótasvika, 0,8% til mistaka greiðsluþega og 0,5% til mistaka stofnunarinnar sjálfrar.
Bresk stjórnvöld eru talin standa framarlega í baráttu við bótasvik og mistök við bótagreiðslur enda hafa þeir lengi beitt markvissum aðgerðum til að sporna við þeim.
Þess má geta að BBC heldur út sjónvarpsþætti sem sýndur er daglega, en þar er fjalla um bótasvik og fylgst er með þeim sem rannsaka svikin og hvernig þeir fletta ofan af svikunum. Ekki er óalgengt að þeir sem uppvísir verða um umfangsmikil bótasvik séu dæmdir í nokkurra ára fangelsi í Bretlandi.