Stjórnlagaráðsmenn stofna Lýðræðisvaktina

mbl.is/Hjörtur

„Það er ekki mikið um þetta að segja að sinni nema bara að það verður fírað í þessu næstu daga,“ segir Lýður Árnason, læknir og fyrrverandi stjórnlagaráðsmaður, í samtali við mbl.is en nýtt framboð til Alþingis verður sett á laggirnar á næstunni undir heitinu Lýðræðisvaktin. Lýður var áður í Dögun en sagði sig úr henni fyrir skemmstu.

Fyrir utan Lýð standa að framboðinu meðal annars Þorvaldur Gylfason hagfræðiprófessor, Pétur Gunnlaugsson lögfræðingur og útvarpsmaður, Örn Bárður Jónsson prestur og Gunnar Tómasson hagfræðingur en allir áttu þeir sæti í stjórnlagaráði sem samdi tillögu að nýrri stjórnarskrá að undanskildum Gunnari.

„Þetta er í raun og veru ekki tengt stjórnlagaráði. Þetta er bara framboð um almenn mál en þetta er náttúrlega fólk úr stjórnlagaráði sem stendur að baki þessu að einhverju leyti,“ segir Lýður. Hins vegar hafi umræddir einstaklingar unnið saman í ráðinu og náð vel saman þar „og telja sig vita hvað þurfi að gera í þessu landi.“

Spurður hvort kannað hafi verið með áhuga allra í stjórnlagaráði með að koma að framboðinu segir Lýður að það hafi ekki verið gert enda ljóst að sumir hafi engan áhuga á því að taka þátt í slíku verkefni. „En það má segja að það sé búið að viðra þetta við nokkra. En það eru bara sumir sem augljóslega hafa engan áhuga á að fara í framboð.“

Lýður segir að nýtt framboð muni snúast um þrjú meginmál, efnahagsmálin, stjórnarskrána og „glímuna við hagsmunaaðila hér á landi.“ Hann hafi vonast til þess að Dögun yrði slíkt framboð með breiða skírskotun sem laðaði til sín þungavigtarfólk úr þjóðmálunum en það hafi ekki orðið raunin að hans mati.

„Þannig að ég bara yfirgaf þá skútu og vildi þá reyna að koma á laggirnar framboði á öðrum vettvangi og það er að takast núna. Það er náttúrlega ekki mikill tími til stefnu þannig að þetta fer á flug núna næstu daga,“ segir hann.

Lýður Árnason, læknir og fyrrverandi stjórnlagaráðsmaður.
Lýður Árnason, læknir og fyrrverandi stjórnlagaráðsmaður.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert