„Þetta er mikill gleðidagur fyrir okkur, en ég hef trú á að þetta verði upphaf að samfelldu uppbyggingar- og hagvaxtarskeiði á Norðurlandi,“ segir Kristján Möller, þingmaður Samfylkingarinnar í Norðurlandskjördæmi eystra, um samstarfsyfirlýsingu um kísilver á Bakka sem var undirrituð í dag.
„Þetta er sérstaklega ánægja fyrir okkur þingmenn kjördæmisins, en við höfum verið alveg samstiga í að berjast fyrir þessu. Þetta sýnir hverju er hægt að áorka ef menn standa saman,“ segir Kristján.
Kristján segir að þeir sem barist hafa fyrir atvinnuuppbyggingu á Norðurlandi hafi ástæðu til að gleðjast þessa dagana. Ekki séu nema nokkrir dagar síðan skrifað var undir samning um gerð Vaðlaheiðarganga, en Kristján segir að göngin séu ein meginforsenda fyrir atvinnuuppbyggingu á Bakka.
Samningarnir sem skrifað var undir í dag eru tveir. Annars vegar er um að ræða yfirlýsingu um samstarf ríkisins við Norðurþing, Hafnarsjóð Norðurþings og þýska iðnfyrirtækið PCC vegna áforma um uppbyggingu kísilvers á Bakka. Jafnframt var undirritað samkomulag milli Norðurþings, Hafnarsjóðs Norðurþings og íslenska ríkisins um ýmsar nauðsynlegar aðgerðir svo hægt verði að ráðast í atvinnuuppbyggingu á Bakka.
Kristján segir að það sem snúi að stjórnvöldum sé að ráðast í uppbyggingu á innviðum á þessu svæði, þ.e.a.s. að leggja vegi og byggja upp hafnaraðstöðu á Bakka. Hann segir að um sé að ræða fjárfestingu upp á um tvo milljarða króna. Reiknað er með að grafin verði jarðgöng sem tengi Húsavíkurhöfn við iðnaðarsvæðið á Bakka. Hann segir gert ráð fyrir að Húsavíkurhöfn taki lán til að fjármagna stækkun hafnarinnar. Um þrjú ár séu síðan Siglingastofnun lauk við gerð líkans að stækkun hafnarinnar.
Kristján segist vilja líta á þessa uppbyggingu á Bakka í samhengi við aðra uppbyggingu sem áformuð er á norðurslóðum, m.a. norðursiglingar, olíuleit við Grænland og olíuleit á Drekasvæðinu. „Ég horfi til þess að þarna verði uppbygging næstu árin og áratugina og þetta verði upphafið að samfeldu uppbyggingar- og hagvaxtarskeiði næstu árin,“ segir Kristján.