„Nú er ekki eftir neinu að bíða. Leiðrétta verður verðtryggðu lánin eins og gengistryggðu lánin. Hætta er á að heimilin með verðtryggðu lánin missi greiðsluviljann í stórum stíl á meðan ágreiningurinn um lögmæti þeirra er fyrir dómstólum.“
Þetta segir Lilja Mósesdóttir alþingismaður á facebooksíðu sinni í morgun vegna fréttaflutnings Morgunblaðsins í dag um að framkvæmd verðtryggingar á lánum hérlendis hafi gengið gegn neytendalöggjöf Evrópusambandsins sem fellur undir EES-samninginn sem Ísland er aðili að.
„Fara verður peningamillifærsluleiðina og taka upp nýkrónu til að klára skuldauppgjörið sem hvílir eins og mara á íslensku samfélagi og kemur í veg fyrir réttláta endurreisn samfélagsins,“ segir hún ennfremur.