Tíu ár verða liðin í vor síðan höfuðstöðvar Orkuveitu Reykjavíkur við Bæjarháls voru vígðar. Framkvæmdir hófust árið 2001 en ákvörðun um að ráðast í byggingu nýrra höfuðstöðva var tekin í október 1999. Veitustofnanir höfðu þá verið í nokkrum húsum við Suðurlandsbraut, Grensásveg og víðar.
Samþykkt var í borgarstjórn í vikunni, með 10 atkvæðum meirihlutans og VG, að taka tilboði Straums fjárfestingabanka í fasteignirnar að Bæjarhálsi 1 og Réttarhálsi 1 upp á 5,1 milljarð króna. Samanlagt eru þetta byggingar á 22 þús. ferm. gólffleti. Straumur lagði fram tilboðið fyrir hönd óstofnaðs félags, en talið er að þar á bakvið séu lífeyris- og verðbréfasjóðir. Mun OR síðan leigja húseignirnar til næstu 20 ára, með kauprétti eftir tíu ár og við lok leigutímans. Leigan á ári verður um 330 milljónir króna. Salan er hluti af aðgerðaáætluninni „Planinu“ sem samþykkt var í apríl 2011, til að bregðast við miklum skuldavanda OR í kjölfar hrunsins.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sátu hjá við afgreiðslu málsins í borgarstjórn. Í bókun segjast þeir vera hlynntir sölu húsanna en starfsemin verði flutt í ódýrara húsnæði.
Kostnaður við byggingu höfuðstöðvanna fór langt fram úr upphaflegum áætlunum en deilt hefur verið um hversu framúrkeyrslan er mikil. Í fyrrnefndri bókun sjálfstæðismanna segir að heildarkostnaðurinn nemi 9,8 milljörðum króna á núverandi verðlagi, eða 4,7 milljörðum umfram tilboð Straums. „Ef litið er svo á að um sölu á húsinu sé að ræða felur það því í sér feiknarlegt tap fyrir Orkuveituna. Að ýmsu leyti hefur fyrirliggjandi sölusamningur yfirbragð lánssamnings til 10-20 ára og í því ljósi má segja að Orkuveitan sé í raun að taka dýrt lán. Kaupverð er langt undir endurstofnverði og vaxtakjör eru mun lakari en Orkuveitan og Reykjavíkurborg njóta nú á lánum sínum,“ segir í bókun sjálfstæðismanna, en fram kom í tilkynningu OR um söluna að söluhagnaður hefði numið 600 milljónum króna. Bókfært virði fasteignanna er þá um 4,5 milljarðar króna.
Á árunum 2002-2003 komu fram upplýsingar frá verkfræðistofum og stjórnendum OR um að kostnaður við höfuðstöðvarnar væri áætlaður frá 2,0-2,9 milljarðar. Í Morgunblaðinu í október 2002 var haft eftir þáverandi stjórnarformanni að kostnaður myndi aðeins fara 8% fram úr áætlunum. Á undanförnum tíu árum hafa kostnaðartölurnar hins vegar hækkað, við bættist um 1.000 fermetra bygging og í ljós kom að ekki var í áætlunum gert ráð fyrir ýmsum kostnaðarliðum eins og loftræstikerfi og frágangi á lóðinni.
Í skýrslu úttektarnefndar á rekstri OR, síðan í október 2012, kemur fram að endanlegur kostnaður hafi ekki komið fram fyrr en 2005. Þá var talað um heildarkostnað upp á 4,3 milljarða, eða um 70% hærri en upphaflegar áætlanir, sé miðað við að þær hafi verið upp á 2,7 milljarða.
Úttektarnefndin fór hins vegar yfir bókhald Orkuveitunnar á þessum árum og komst að því að byggingarkostnaður á árunum 2001-2005 hefði verið 5,3 milljarðar á verðlagi hvers árs, eða nærri 8,5 milljarðar á verðlagi 2010. Miðað við verðlag í dag er sú upphæð komin í 9,4 milljarða. Tekur úttektarnefndin fram að sala gömlu höfuðstöðvanna hafi skilað Orkuveitunni 1,8 milljörðum króna á sínum tíma en uppfært til dagsins í dag er það um 3,6 milljarðar kr.
Eiríkur Hjálmarsson, upplýsingafulltrúi OR, segir að úttektarnefndin hafi í tölum um byggingarkostnað ekki tekið afskriftir eignanna með í reikninginn. „Í reikningsskilum fyrirtækja er þetta ekki gert svona. Þar eru eignir afskrifaðar á líftíma þeirra og þessi eign hefur verið afskrifuð frá því hún var tekin í notkun 2003. Í bókum Orkuveitunnar eru fasteignir afskrifaðar samkvæmt reglum þar um.“
Hvað sem öllum tölum líður þá er ljóst að höfuðstöðvar OR fóru langt fram úr upphaflegum áætlunum. Úttektarnefndin gagnrýndi hvernig að málum var staðið, mikill hraði hefði einkennt verkið og kappsamlega unnið að því að koma rekstrinum undir eitt þak. Einnig hefði komið í ljós að Orkuveitan hefði ekki þörf fyrir allt þetta húsnæði, enda hefur það að hluta til staðið autt og gerir enn. Öll austurálma aðalbyggingarinnar stendur auð en að sögn Eiríks er von á varanlegum leigjanda á næstunni sem tekur eina hæð af fjórum í álmunni. Einnig er vilji til þess að leigja út húsnæði á 1. hæð vesturálmu.
Notkun á innviðum Orkuveituhússins hefur einnig verið gagnrýnd gegnum tíðina. Auk umræðunnar um eldhúsið var um tíma rekin líkamsræktarstöð í húsinu undir merkjum World Class en starfsmenn nota nú það húsnæði í dag með líkamsræktartækjum í eigu Orkuveitunnar.