Skútustaðahreppur telst til óbyggða

Frá Skútustaðahreppi.
Frá Skútustaðahreppi. mbl.is/RAX

Skútustaðahreppur og Norðurþing gera margvíslegar athugasemdir við drög að frumvarpi til laga um náttúruvernd en samkvæmt ákvæðum þeirra telst Skútustaðahreppur til óbyggða.

„Sérstaka athygli sveitarstjórnar Skútustaðahrepps vekur skilgreiningin á óbyggðum í drögunum, en þar eru óbyggðir skilgreindar sem nánast allt land sem er yfir 200 metra hæð yfir sjó. Eins og öllum Þingeyingum ætti að vera kunnugt liggur allur Skútustaðahreppur vel yfir 200 metra mörkunum og því samkvæmt frumvarpsdrögunum óbyggðir, eins og hann leggur sig,“ segir í frétt um þetta mál á vefsetrinu 641.is.

„Markmið laganna virðist vera að gefa umhverfisverndaryfirvöldum tæki til að taka landsvæði til friðunar að eigin geðþótta, og stytta leiðina frá því ferli sem nú er í gildi, án þess að eigandi eða viðkomandi stjórnvald (sveitarfélög)  þess lands fái rönd við reist,“ segir í athugasemdum Skútustaðahrepps.

Á öðrum stað segir: „Eignarréttur landeigenda virðist í lögum þessum algjörlega fyrir borð borinn. Lögin segja beinlínis að eiganda lands eða rétthafa er óheimilt að hindra almenning í að njóta þeirra réttinda sem mælt er fyrir um og sá sem telur brotið gegn réttindum þessum getur krafist úrlausnar Umhverfisstofnunar. Mönnum er ekki heimilt nema með leyfi hins opinbera að verja lönd sín fyrir ágangi, jafnvel þúsunda manna ...“

Þá gagnrýnir sveitarstjórnin, að þeir sem ferðist fótgangandi um Ísland virðist njóta meiri réttar en þeir sem kjósi að eða eiga ekki annan kost en að ferðast um á vélknúnum farartækjum og hestum.

Í umsögn skipulags- og bygginganefndar Norðurþings eru gagnrýnd ákvæði um hvar heimilt sé að tjalda og spurt hvað sé hefðbundið viðlegutjald og hvað þá óhefðbundið. Ennfremur segir, að óviðunandi sé, að opið sé í lögum að ráðherra hafi einhliða í hendi sér samningu reglugerðar um hvaða undanþágur gilda um akstur utanvega.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert