Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna í menningar- og ferðamálaráði telja ekki hægt að fallast á ýmislegt í nýrri skýrslu starfshóps um sundlaugarnar í Reykjavík. Telja þeir meðal annars að nýframkvæmdum hefði átt að forgangsraða með öðrum og eðlilegri hætti.
Skýrslan var til umræðu á fundi menningar- og ferðamálaráðs fyrir helgi. Borgarfulltrúar Samfylkingar og Besta flokksins lýstu þá yfir ánægju sinni með skýrsluna auk þess að leggja áherslu á að afgreiðslutími lauganna verði lengdur, sér í lagi um helgar.
Í bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna segir hins vegar að ýmislegt komi þar fram sem ekki sé hægt að fallast á og þarfnist frekari skoðunar, sérstaklega fjárfestingaráætlun sem geri ráð fyrir nýframkvæmdum. „Það vekur t.d. mikla furðu að hefja eigi framkvæmdir við Sundhöll Reykjavíkur á þessu ári á sama tíma og ekki er gert ráð fyrir nema kennslulaug í Grafarholti og Úlfarsárdal og að ekki eigi að fara í endurbætur á laugarkeri í Laugardalslaug fyrr en árið 2016 en eins og margsinnis hefur verið bent á er nauðsynlegt að fara í úrbætur þar sem fyrst öryggisins vegna.“