Telur aðra setja sig í stellingar

Vilhjálmur Egilsson.
Vilhjálmur Egilsson. Árni Sæberg

„Manni sýnist að aðrar stéttir, ekki eingöngu innan Landspítalans heldur út um allt, séu að setja sig í stellingar til að fara fram á svipaðar launahækkanir,“ segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, spurður um möguleg áhrif launabreytinga í nýgerðum stofnanasamningi hjúkrunarfræðinga og Landspítalans á vinnumarkaðinum.

Meðalhækkunin í samningunum við hjúkrunarfræðinga er um 6% að mati Vilhjálms. „Þetta er nokkuð fljótreiknað. Konur eru hátt í helmingur vinnumarkaðarins þannig að ef allar konur eiga að fá 6% hækkun þá er vinnumarkaðurinn í heild að hækka í kringum 3% og ef þeir sem eru með meiri menntun eiga svo að fá meira en hinir, þá kemur það þessu til viðbótar. Þar með væri ávísað á launahækkun sem er jafnhá þeirri sem er að ganga yfir núna vegna kjarasamninganna. Ef eitthvað slíkt á að ganga yfir þá hefði það bara aukna verðbólgu í för með sér,“ segir hann.

Ekki verið leitað samkomulags við aðra með nokkrum hætti

Vilhjálmur segir það gleymast í þessari umræðu að það sé samhengi á vinnumarkaðinum. „Ef hjúkrunarfræðingar eiga að hækka umfram aðra þá þarf að vera samkomulag um það við alla hópa á vinnumarkaði. Mér sýnist ekki að slíks samkomulags hafi verið leitað með nokkrum hætti,“ segir hann.

,,Við erum ekki farin að sjá það ennþá hvar ríkisstjórnin ætlar sér að stoppa þennan bolta, sem hún ýtti af stað,“ bætir hann við.

Kjarasamningar á almennum vinnumarkaði gilda til 30. nóvember nk. og Vilhjálmur segir að samtökin ætli ekki að taka samningana upp fyrir þá tímasetningu. „Þróunin hjá hinu opinbera hefur áhrif á almenna vinnumarkaðinn og hvernig spilast úr því. Okkar meginmarkmið er að geta hækkað laun á grundvelli stöðugleika og það er augljóst mál að ef opinberi vinnumarkaðurinn er að hækka langt umfram almenna vinnumarkaðinn, þá er það ekki gott innlegg.“

Vilhjálmur segist ekki taka afstöðu til samninga hjúkrunarfræðinga sem slíkra en lykilatriðið sé að ef hækka eigi eina stétt umfram aðra, þá þurfi að vera miklu víðtækara samkomulag um það á vinnumarkaðinum en komi fram í þessum stofnanasamningi á Landspítalanum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert