Í dag hvessir sunnanlands. Spáð er austan 15-20m/s syðst á landinu í kvöld og nótt, og hvössum vindhviðum undir Eyjafjöllum í nótt. Vaxandi vindur á Norðvesturlandi í kvöld, 13-18 m/s og minnkandi skyggni vegna skafrennings á fjallvegum en heldur minni vindur á láglendi.
Vegir á Suður- og Vesturlandi eru að mestu auðir en þó eru hálkublettir á Bröttubrekku, Holtavörðuheiði, Fróðárheiði og í Svínadal.
Á Vestfjörðum er hálka eða hálkublettir á flestum leiðum. Ófært er á Þröskuldum en snjóþekja og skafrenningur á Steingrímsfjarðarheiði. Hálkublettir eru á Ströndum.
Það er hálka eða hálkublettir á flestum vegum á Norðurlandi, víðast aðeins blettir í Húnavatnssýslum en öllu meiri hálka þar fyrir austan. Hálka og éljagangur er á Öxnadalsheiði. Snjóþekja er á Hófaskarði og á Vopnarfjarðarheiði.
Á Austurlandi er snjóþekja á Vatnsskarði eystra og á Jökuldal en hálka á Oddsskarði, Fjarðarheiði og víðar inn til landsins. Hálkublettir eru á öllum leiðum í kringum Egilsstaði og á Fagradal. Niðri á fjörðum er hins vegar autt frá Reyðarfirði og suður um.