Ríkissaksóknari krafðist þess fyrir Hæstarétti í morgun að refsing Barkar Birgissonar fyrir ærumeiðingar og brot gegn valdsstjórninni verði þyngd, en hann var dæmdur í sex mánaða fangelsi í Héraðsdómi Reykjaness. Verjandi Barkar krafðist hins vegar sýknu en til vara að refsing verði milduð.
Börkur var í málinu ákærður fyrir að hafa í tvígang 27. apríl 2012 kallað Söndru Baldvinsdóttur, héraðsdómara við Héraðsdóm Reykjaness, „tussu“ og að hafa í kjölfar uppkvaðningar úrskurðar um að hann skyldi afplána eftirstöðvar refsingar vegna rofs á reynslulausn hrækt á dómarann og hrákinn hafnað á skikkju dómarans og hægra handarbaki.
Í héraðsdómi 26. júní 2012 var Börkur sakfelldur fyrir brotin og dæmdur í sex mánaða fangelsi. Í niðurstöðu dómsins segir að hegðun Barkar í dómssal hafi verið ósæmileg og niðrandi. Það að kalla héraðsdómara „tussu“ hafi verið móðgun og án nokkurs vafa til þess fallið að meiða æru dómarans.
Eins og áður segir fór ákæruvaldið fram á það fyrir Hæstarétti í morgun að sakfelling Barkar verði staðfest og refsing hans þyngd. Hulda María Stefánsdóttir saksóknari fór yfir málið og sagði ljóst að Börkur hefði gerst sekur um ærumeiðingu þegar hann kallaði héraðsdómarann „tussu“. Fimm vitni sem voru í dómsalnum staðfesti það að orðunum hafi verið beint að dómaranum.
Þá hafi Börkur sjálfur verið spurður út í að hverjum hann beindi orðunum og hann svarað því til að hann hafi beint þeim að „tussu“ sem hann var að horfa á. Börkur hafi hins vegar neitað að tjá sig um við hvern hann átti. Vitnin í málinu hafi hins vegar öll staðfest að Börkur horfði á héraðsdómarann þegar hann mælti orðin.
Saksóknari beindi því til hæstaréttardómara að hlusta á upptöku úr dómsal þar sem vel heyrist hversu áberandi orðin hljómuðu og hversu ósvífin hegðun þetta hafi verið hjá Berki.
Hvað hrákann varðar sagði saksóknari Hæstarétt áður hafa kveðið upp úr um að það teljist ofbeldi að hrækja á opinberan starfsmann. Það hafi komið til meðferðar réttarins alla vega tvisvar og héraðsdómur staðfest það margoft. „Það á líka heyra á upptökunni [...] þegar ákærði safnar hrákanum í munni sínum,“ benti saksóknari á og ítrekaði hversu ósvífin framkoma þetta væri. „Hún er nýbúin að ljúka við að lesa upp úrskurðarorð þegar hann hrækir á dómarann. Ákæruvaldið telur að þetta sé algjört einsdæmi, enda fundust engir dómar þar sem hrækt hefur verið á dómara eða eitthvað svona gert í þinghaldi.“
Saksóknari sagðist telja að dómurinn eigi að taka tillit til þess að um einsdæmi sé að ræða og það eigi að skipta máli við ákvörðun refsingar. Þá megi líta til 1. mgr. 73. gr. almennra hegningarlaga þar sem segir að þegar fangi brjóti af sér í gæslu megi fara út fyrir hæsta stig refsingar sem við broti hans liggur. „Ég vísa í þetta og ítreka hvað þetta er svívirðileg og fordæmalaus hegðun.“
Brynjar Níelsson, verjandi Barkar, gerði þá kröfu að Börkur verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins og til vara að refsingin verði milduð. Hann sagði engan ágreining í málinu um að Börkur hafi hrækt að dómaranum né um það að hann hafi sagt orðið „tussa“ í tvígang.
Hann benti hins vegar á að Börkur hafi ætíð neitað því að hafa beint orðunum að dómaranum. „Hann sagði ekki „dómarinn er tussa““. Hann notaði ekki nafn hans heldur byggist þetta á upplifun annarra sem í salnum voru. Þá stendur rétturinn frammi fyrir því hvort það eitt dugi til sakfellingar hvað þennan ákærulið varðar. Upplifun annarra.“
Þá haldi Börkur því fram að hráki geti ekki flokkast sem ofbeldi og því beri að sýkna hann af broti gegn valdsstjórninni. „Hér liggur engu að síður fyrir dómur [...] þar sem Hæstiréttur segir að þetta sé ofbeldi. Einhver gæti sagt að Hæstiréttur hafi þar gert alvarleg mistök og að þetta sé einfaldlega rangt.“
Brynjar sagðist velta því fyrir sér hversu oft hafi verið hrækt á aðra en opinbera starfsmenn. „Enginn hefur verið dæmdur fyrir ofbeldi þegar hrækt er á aðra en opinbera starfsmenn. Er ofbeldishugtakið eitthvað öðruvísi hjá opinberum starfsmönnum en öðrum?“
Hann sagðist ekki ætla að draga úr því að hegðun Barkar í dómsal hafi verið fáránleg og í raun gjörsamlega óþolandi. „En ef fallist er að á að refsa eigi fyrir hana þá er spurning hver sé eðlileg refsing.“ Hann fór yfir fyrri dóma Hæstaréttar þar sem meðal annars karlmaður var sakfelldur fyrir að slá lögreglumann í tvígang og hrækja á hann. Hann hafi hlotið 30 daga skilorðsbundið fangelsi. Það væri dómaframkvæmdin. „Það eru ítrekunaráhrif í þessum dómi og þá má þyngja refsinguna um helming. En hvernig stendur á því að refsing Barkar er sex sinnum þyngri? Og svo er beðið um þyngri refsingu en það. Er það vegna þess að hann heitir Börkur Birgisson?“
Brynjar ítrekaði að hann væri alls ekki að réttlæta hegðun Barkar og sagði að hún væri fráleit. Hins vegar verði að horfa til aðstæðna, hann hafi verið í uppnámi og refsingin verði að vera í eðlilegum farvegi miðað við aðra dóma um sambærileg atvik. Hann sagði að ef Hæstiréttur fallist á að refsa beri Berki ætti refsingin í versta falli að vera tveggja mánaða fangelsi.
Búast má við að Hæstiréttur kveði upp dóm sinn á fimmtudag í næstu viku.