Fyrsti umboðsmaður borgarbúa ráðinn

Ingi B. Poulsen verður fyrsti umboðsmaður borgarbúa.
Ingi B. Poulsen verður fyrsti umboðsmaður borgarbúa. Ljósmynd/© Bernhard Kristinn Ingimundars

Reykjavíkurborg hefur ráðið Inga B. Poulsen í nýtt embætti svo kallaðs umboðsmanns borgarbúa. Alls bárust 19 umsóknir um stöðuna þegar staðan var auglýst laus til umsóknar í janúar en einn dró umsókn sína til baka vegna opinberrar birtingar á lista yfir umsækjendur.

Umboðsmaður á að leiðbeina borgarbúum og fyrirtækjum sem telja á sér brotið við meðferð mála hjá Reykjavíkurborg auk þess að sinna almennum kvörtunum og leiðbeiningum og ábendingum varðandi þjónustuna.

Ingi er með meistaragráðu í lögfræði frá Háskóla Íslands og hefur stundað framhaldsnám í umhverfis- og auðlindarétti. Hann fékk héraðsdómslögmannsréttindi árið 2008 og  starfaði um tæplega fjögurra ára skeið hjá embætti borgarlögmanns við almenn málflutningsstörf, lögfræðilega ráðgjöf innan borgarkerfisins og málflutning á kærustigi innan stjórnsýslunnar. Síðastliðin ár hefur Ingi starfað sem meðeigandi á lögmannsstofu.

Capacent sá um ráðningarferlið og samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg var það samdóma mat allra þeirra sem að ferlinu komu að Ingi B. Poulsen þætti hæfastur í starfið. Í ráðningarferlinu hafi m.a. komið fram einstaklega skýr sýn hans á starfið og hlutverk umboðsmanns borgarbúa, auk þess sem hann þótti sýna verkefninu djúpan skilning og áhuga. Ingi mun hefja störf 1. mars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert