Launhækkun um 4% tekur gildi hjá félagsmönnum í Félagi grunnskólakennara næstu mánaðamót. Laun félagsmanna flestallra stéttarfélaga hækka um 3,25% um þessar mundir, en þar sem samningar grunnskólakennara eru lausir var ekki tryggt að þeir nytu þessara kjarabóta, en nú hefur verið ákveðið að svo verði, samkvæmt frétt á vef Kennarsambands Íslands.
Auk launahækkunarinnar verður framlag sveitarfélaganna í Vonarsjóð eða Sjúkrasjóð KÍ hækkað í áföngum um 0,1% eigi síðar en 1. janúar 2015. Þetta atriði verður nánar útfært í næsta kjarasamningi. Annaruppbætur verða 69.000 kr. í júní og desember 2013, eins og samið var um 2011.
Kjaraviðræður Félags grunnskólakennara og Sambands íslenskra sveitarfélaga fóru inn á borð ríkissáttasemjara fyrir jól þar sem samningsaðilar náðu ekki samkomulagi. Ríkissáttasemjari lagði til við samninganefndirnar að samningsaðilar endurnýjuðu viðræðuáætlun sín á milli til 28. febrúar 2014.
Undanfarnar vikur hafa stjórn, samninganefnd og svæðaformenn FG haldið fundi með kennurum víða um land. Samkvæmt frétt á vef KÍ var farið í marga skóla, trúnaðarmannafundir haldnir og opnir fundir með kennurum. Ætla má að á annað þúsund kennarar hafi sótt þessa fundi.