Metfjöldi húsa friðaður í fyrra

Bjargarstíg 17 er dæmi um reykvísku steinbæina sem byggðir voru …
Bjargarstíg 17 er dæmi um reykvísku steinbæina sem byggðir voru undir lok 19. aldar. Húsið var friðað 2011. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Sjaldan eða aldrei hafa húsafriðanir verið fleiri en árið 2012, en þá friðaði mennta- og menningarmálaráðuneytið 35 hús og mannvirki samkvæmt tillögum frá húsafriðunarnefnd.

Það sem helst einkennir friðanir ársins er hve mörg hlaðin steinhús í Reykjavík voru friðuð, en steinbæir eru sérreykvísk byggingargerð frá lokum 19. aldar. Sérstakt átak var gert í að tryggja verndun þeirra á árinu. 

Torfbæirnir tóku á sig nýja mynd

Tímamót urðu í byggingu steinhúsa þegar Alþingishúsið var byggt á árinum 1880-1881. Íslendingar lærðu þar iðnina að höggva til grjót og í kjölfarið voru allmörg steinhús byggði í Reykjavík fram til aldamóta, samkvæmt upplýsingum frá Minjastofnun Íslands.

Það voru einkum tómthúsmenn sem byggðu sér steinbæi til íbúðar en áður bjuggu þeir í torfbæjum. Lag torfbæjarins var lagað að nýjum aðstæðum og er hér um sérreykvískt fyrirbæri að ræða.

Í árslok 2012 voru þessi hús friðuð:

  • Laufásvegur 5 í Reykjavík. Friðunin nær til ytra byrðis steinhlaðna framhússins, sem byggt var árið 1880.
  • Nýlendugata 9 í Reykjavík. Friðunin nær til ytra byrðis hússins.
  • Vesturgata 50 í Reykjavík. Friðunin nær til ytra byrðis hússins.
  • Vesturgata 57 í Reykjavík. Friðunin nær til ytra byrðis hússins, sem byggt var árið 1882 og seinni tíma viðbygginga.
  • Vesturgata 61 í Reykjavík. Friðunin nær til ytra byrðis Jórunnarsels, sem byggt var árið 1881 og Litlasels, sem byggt var árið 1889. 
  • Þingholtsstræti 1 í Reykjavík. Friðunin nær til ytra byrðis hússins og viðbyggingar, sem reist var árið 1907.

Fram kemur á vef mennta- og menningarmálaráðuneytisins að þessar friðanir séu þær síðustu samkvæmt eldri lögum, frá 2001, um menningarminjar sem féllu úr gildi þegar ný lög (nr. 80/2012) tóku gildi 1. janúar 2013.

Í nýju lögunum er verndun húss og annarra menningarverðmæta tvíþætt. Annars vegar friðun vegna aldurs, en öll hús 100 ára og eldri eru friðuð sjálfkrafa, og hins vegar friðlýst hús, sem ráðherra ákveður að friðlýsa að fengnum tillögum Minjastofnunar Íslands.

Listi yfir hús og mannvirki sem hafa verið friðuð er að finna á vef Minjastofnunar Íslands, en á listann vantar þó nýjustu friðanir ársins 2012.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert