Ræða makrílrannsóknir í stærra hópi

Makríll.
Makríll.

Fundur sem haldinn verður í Danmörku um næstu mánaðamót um makríl gæti verið upphafið að auknu samstarfi Evrópusambandsins og annarra strandríkja og breytingum á aðferðum við mælingar á stærð stofnsins.

Það hefur lengi aukið óvissu um stofnmat að verulegu magni af makríl hefur verið landað ólöglega í Skotlandi, Írlandi og víðar. Deilur hafa í mörg ár verið um stjórn makrílveiða í Norðaustur-Atlantshafi.

Eggjatalning á þriggja ára fresti er grundvöllur stofnmats, sem veiðiráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins byggist á. Frá árinu 2009 hafa Íslendingar, Norðmenn og Færeyingar hins vegar haldið úti svonefndum trollmælingum á norðursvæðinu. Aðferðir við þær mælingar eru nákvæmlega samstilltar og er togað á fyrirfram ákveðnum stöðum með sams konar trollum. Úrvinnslan er síðan sameiginleg og nú er komin fjögurra ára reynsla á þessa aðferð.

Fundurinn í Danmörku er haldinn undir hatti Alþjóða hafrannsóknaráðsins, ICES, en aðildarríkin eru 23. Auk fiskifræðinga er vænst fulltrúa frá útgerðinni og segist Þorsteinn Sigurðsson, sviðsstjóri á nytjastofnasviði Hafrannsóknastofnunar, vonast til að breið þátttaka verði á fundinum og umræðan í samræmi við það. Fundurinn sé meðal annars haldinn vegna þrýstings frá Íslendingum, þar á meðal útgerðinni, en einnig eftir umræður á vettvangi NEAFC.

„Það eru vissulega nýmæli að þessi hópur hittist til að fara yfir vandamál sem tengjast aflagögnum, rannsóknum og því hvernig menn geta stillt saman strengi,“ segir Þorsteinn. „Fundurinn tengist samstarfi Íslendinga, Norðmanna og Færeyinga um rannsóknir á makríl að sumarlagi, sem fram hafa farið síðan 2009. Við vonumst til að Evrópusambandið komi inn í þetta samstarf þannig að hægt verði að stækka rannsóknasvæðið til suðurs og við fáum heildaryfirsýn yfir sumarútbreiðslu alls makrílstofnsins í Norðaustur-Atlantshafi.“

Gríðarlega stórt svæði

Útbreiðslusvæði makríls Í NA-Atlantshafi er gríðarlega stórt og nær allt frá Portúgal, norður til Svalbarða og vestur í lögsögu Grænlands. Nú er talið að hrygningarstofn makríls sé um þrjár milljónir tonna.

Gagnrýnt hefur verið að svokallaðir eggjaleiðangrar, sem eru lagðir til grundvallar við stofnmat makríls í Norðaustur-Atlantshafi, eru aðeins farnir á þriggja ára fresti. Spurður hvort hægt sé að fara í eggjatalningar árlega segir Þorsteinn að það sé hæpið þar sem um gífurlega umfangsmikið verkefni sé að ræða. Talningin árið 2010 hafi tekið samtals um 350 rannsóknadaga á mörgum skipum allt frá lögsögu Portúgals og inn í lögsögu Íslands. Bergmálsmælingar á makríl eru tæpast gerlegar þar sem fiskurinn hefur ekki sundmaga og endurkast eins og aðrir fiskar.

Spurður hvort hann telji að byggt sé á röngu stofnmati við veiðiráðgjöf segir Þorsteinn að slíkar fullyrðingar byggist ekki á vísindalegri nálgun. ICES byggi við ráðgjöf sína og mat á bestu fáanlegu upplýsingum. Hugsanlega hafi stofnmatið verið of lágt og undanskot afla geti verið ávísun á að stofninn sé metinn minni heldur en hann raunverulega er. Erfitt sé þó að fullyrða um slíkt.

Gögnin þurfa að vera í lagi

Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ, fagnar því að menn setjist niður til að ræða þessi mál í stærri hópi en áður. Brýnt sé að sem fyrst verði farið í rannsóknir með trollaðferðinni í lögsögu Evrópusambandsins og reynslan af samstarfinu á norðursvæðinu komi að góðum notum við undirbúning verkefnisins.

„Við erum búnir að tala fyrir því lengi að endurmeta þurfi stofninn,“ segir Friðrik. „Gögn um veiðina þurfa að vera í lagi og það er langt í frá að svo hafi verið. Það er vont að eggjaleiðangrar fari aðeins fram á þriggja ára fresti og til dæmis í ár eru menn að vinna út frá þriggja ára gömlum grunni. Aðalmálið er samt sem áður að komast að því hvað umframveiðin og svarta löndunin höfðu mikil áhrif á stofnmatið. Það þarf að gera annars vegar með nýjum aðferðum eins og trollmælingunum og svo þarf líka að endurmeta hrognatalningaraðferðina.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert